Erlent

Segja að­gerðir lög­reglu á minningar­sam­komu hafa verið nauð­syn­legar

Kjartan Kjartansson skrifar
Minningarsamkoman var haldin nærri götunni þar sem Everard sást síðast í Suður-London. Til átaka koma á milli lögreglu og viðstaddra.
Minningarsamkoman var haldin nærri götunni þar sem Everard sást síðast í Suður-London. Til átaka koma á milli lögreglu og viðstaddra. Vísir/EPA

Aðstoðarlögreglustjóri lögreglunnar í London segir að aðgerðir lögreglu gegn konum sem söfnuðust saman til að minnast ungrar konu sem var myrt í borginni hafi verið nauðsynlegar. Borgarstjóri London og innanríkisráðherra Bretlands eru á meðal þeirra sem hafa krafið lögregluna skýringa á framgöngu hennar gegn konunum.

Lögreglumenn stöðvuðu minningarathöfn um Söruh Everard, unga konu sem var rænt og myrt fyrr í þessum mánuði, sem var haldin í Clapham í suðurhluta London í gærkvöldi. Nokkur hundruð manns voru þar saman komin þrátt fyrir að skipuleggjendur viðburðarins hefðu formlega hætt við hann. Til nokkurra átaka kom þegar lögreglumenn ætluðu að leysa samkomuna upp. Þeir handjárnuðu konur og eru sakaðir um að hafa rifið í þær.

Að sögn lögreglu voru fjórir handteknir til að tryggja öryggi fólks vegna kórónuveirufaraldursins.

Priti Patel, innanríkisráðherra úr Íhaldsflokknum, sagði myndir frá viðburðinum sem birtust á samfélagsmiðlum hafi verið óþægilegar á að horfa. Hún hafi beðið lögregluna um skýrslu um hvað gerðist. Sadiq Khan, borgarstjóri London úr Verkamannaflokknum, sagði það sem gerðist á viðburðinum óásættanlegt og að hann krefði lögreglustjórann einnig skýringa, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

„Lögreglan hefur skyldu til að framfylgja lögum vegna Covid en af þeim myndum sem ég hef séð að dæma er ljóst að viðbrögðin voru á köflum hvorki viðeigandi né í samræmi við tilefnið,“ tísti Khan.

Helen Ball, aðstoðarlögreglustjóri í London, ver aðgerðir lögreglunnar. Hún hafi verið sett í aðstæður þar sem nauðsynlegt reyndist að framfylgja lögum til að tryggja öryggi fólks.

„Hundruð manns voru þétt saman með raunverulegri hættu á að Covid-19 smitaðist auðveldlega,“ hefur The Guardian eftir Ball. Hún segir að lögreglumenn hafi rætt við fólkið ítrekað áður en gripið var til aðgerða.

Morðið á Everard hefur orðið kveikjan að umræðu um öryggi kvenna almennt. Lögreglumaður á fimmtugsaldri var handtekinn í síðustu viku, grunaður um að hafa rænt Everard og myrt hana. Hann var ákærður og leiddur fyrir dómara í gær.


Tengdar fréttir

Leiddur fyrir dómara og ákærður fyrir morðið á Everard

Breski lögreglumaðurinn Wayne Couzens, sem var í gærkvöldi ákærður fyrir að hafa rænt og myrt Söruh Everard, sem hvarf 3. mars síðastliðinn, var leiddur fyrir dómara í dag og ákæran á hendur honum formlega staðfest.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×