Erlent

Mót­mælendur minnast Breonnu Taylor ári eftir dauða hennar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Taylor lést þegar vopnaðir lögreglumenn brutu sér leið inn í íbúð hennar og skutu hana til bana þar sem hún lá sofandi í rúmi sínu.
Taylor lést þegar vopnaðir lögreglumenn brutu sér leið inn í íbúð hennar og skutu hana til bana þar sem hún lá sofandi í rúmi sínu. Getty/Jon Cherry

Í dag er eitt ár síðan Breonna Taylor, 26 ára gömul blökkukona og sjúkraliði, var skotin til bana af lögreglu á heimili sínu í Louisville í Bandaríkjunum. Fjöldi fólks kom saman í miðborg Louisville í dag til þess að minnast hennar.

Dauði hennar olli miklu uppþoti í borginni og kom af stað mótmælum gegn lögregluofbeldi og kynþáttafordómum.

Taylor var skotin til bana af lögreglumönnum sem brutu sér leið inn á heimili hennar um miðja nótt. Lögreglumennirnir voru með heimild til þess að fara inn á heimilið án þess að láta vita af sér og varð hún því ekki vör við komu þeirra.

Kærasti Taylor, Kenneth Walker, skaut á og særði einn lögreglumann í aðgerðinni. Fyrr í þessum mánuði var ákæra á hendur honum um morðtilræði felld. Walker sagðist hafa haldið að um innbrotsþjófa væri að ræða. Eftir að Walker skaut á lögregluna svöruðu þeir með 32 kúlna hríð, sex þeirra hæfðu Taylor.

Mótmælendur í Louisville minnast dauða Breonnu Taylor.Getty/Jon Cherry

Enginn lögregluþjónanna var ákærður vegna dauða Taylor, sem var harðlega gagnrýnt og mótmæli brutust út vegna þess.

Dauði Breonnu vakti litla landsathygli fyrst um sinn en varð umtalaður í kjölfar dauða George Floyd, óvopnaðs blökkumanns sem lést eftir að lögreglumaður kraup á hálsi hans, í Minneapolis. Dauði Floyd vakti upp mótmælaöldu í Bandaríkjunum og víðar síðasta sumar.

Fjölskylda Taylor höfðaði mál gegn Louisville borg og samdi borgin við fjölskylduna um að greiða 12 milljóna dala sáttagreiðslu vegna dauða hennar.

Aðeins einn lögreglumannanna sem tók þátt í aðgerðinni sem leiddi til dauða Taylor var ákærður í tengslum við aðgerðina. Brett Hankison var ákærður fyrir að hafa lagt líf nágranna Taylor í hættu með því að hafa skotið af byssu sinni inn um útidyrahurðina að næstu íbúð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×