Enski boltinn

Sheffi­eld United stað­­­festir að Chris Wild­er sé hættur sem þjálfari liðsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Chris Wilder er ekki lengur þjálfari Sheffield United.
Chris Wilder er ekki lengur þjálfari Sheffield United. EPA-EFE/PETER POWELL

Sheffield United, botnlið ensku úrvalsdeildarinnar, staðfesti í kvöld að Chris Wilder sé hættur sem þjálfari liðsins. Í yfirlýsingu félagsins segir að um sameiginlega ákvörðun sé að ræða.

Fyrir helgi bárust fregnir þess efnis að Sheffield United væri búið að taka þá ákvörðun að láta Wilder taka poka sinn. Þær fregnir voru endanlega staðfestir í kvöld þó þar hafi sagt að ákvörðunin væri sameiginleg.

Sheffield United átti sannkallað draumatímabil á síðustu leiktíð, þeirra fyrsta í ensku úrvalsdeildinni í meira en áratug. Á þessu tímabili hefur hins vegar ekkert gengið upp. Liðinu fór að fatast flugið eftir að enska úrvalsdeildin fór af stað að nýju eftir Covid-hléið og það slæma gengi hefur elt liðið inn í þessa leiktíð.

Liðið situr sem fastast á botni deildarinnar með aðeins 14 stig að loknum 28 leikjum.

Eins ótrúlegt og það hljómar er liðið þó aðeins tólf stigum frá öruggu sæti en það er þó ljóst að liðið á litla sem enga möguleika á að halda sæti sínu.

Wilder hefur stýrt liðinu undanfarin fimm ár. Þegar hann tók við þeim var Sheffield í C-deildinni. Þangað til á þessari lektíð hafði leiðin aðeins legið upp á við en nú er ljóst að samstarfi þeirra er lokið.

Ekki hefur verið gefið út hver tekur við af Wilder.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×