Erlent

Handtökuskipun gefin út á hendur fyrrverandi forseta

Kjartan Kjartansson skrifar
Jeanine Áñez, þáverandi starfandi forseti, á athöfn sem var haldin til að heiðra bólivíska hermenn sem tóku þátt í að handsama byltingarleiðtogann Ernesto „Ché“ Guevara í október.
Jeanine Áñez, þáverandi starfandi forseti, á athöfn sem var haldin til að heiðra bólivíska hermenn sem tóku þátt í að handsama byltingarleiðtogann Ernesto „Ché“ Guevara í október. Vísir/EPA

Saksóknarar í Bólivíu hafa gefið út handtökuskipun á hendur Jeanine Áñez, fyrrverandi starfandi forseta landsins, og nokkrum fyrrverandi ráðherrum. Áñez er sökuð um að hafa tekið þátt í valdaráni gegn Evó Morales, fyrrverandi forseta. Sjálf segist hún fórnarlamb pólitískra hefnda flokks Morales sem er nú aftur við völd.

Morales hrökklaðist úr embætti og flúði land eftir umdeildar forsetakosningar haustið 2019. Ásakanir voru um kosningasvik og til blóðugra mótmæla kom. Varaforseti Morales og leiðtogar öldungadeildar þingsins flúðu einnig land. Þannig kom það til að Áñez, leiðtogi lítils íhaldsflokks, tók við embætti forseta tímabundið. Sósíalistaflokkur Morales vann svo stórsigur í forseta- og þingkosningum sem voru haldnar í október.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að saksóknarar hafi ekki greint frá sakarefninu ennþá. Áñez tísti handtökuskipuninni sem hún segir að hafa verið vegna hryðjuverka, uppreisnar og samsæris. „Pólitísku ofsóknirnar eru hafnar,“ tísti hún.

Rodrigo Guzman, fyrrverandi orkumálaráðherra, og Álvaro Coimbra, fyrrverandi dómsmálaráðherra, hafa þegar verið handteknir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×