Erlent

Navalní sagður fluttur á óþekktan stað

Kjartan Kjartansson skrifar
Stuðningsmaður Alexe Navalní heldur á mynd af honum. Navalní var dæmdur til að afplána tveggja og hálfs árs fangelsisdóm þegar dómstóll taldi hann hafa brotið gegn reynslulausn á meðan hann lá á sjúkrahúsi í Þýskalandi eftir að eitrað var fyrir honum í Rússlandi.
Stuðningsmaður Alexe Navalní heldur á mynd af honum. Navalní var dæmdur til að afplána tveggja og hálfs árs fangelsisdóm þegar dómstóll taldi hann hafa brotið gegn reynslulausn á meðan hann lá á sjúkrahúsi í Þýskalandi eftir að eitrað var fyrir honum í Rússlandi. Vísir/EPA

Lögmenn Alexei Navalní, rússneska stjórnarandstöðuleiðtogans, segja að yfirvöld hafi flutt hann úr fangelsi þar sem honum hefur verið haldið undanfarnar vikur á óþekktan stað. Mögulegt er að Navalní hafi verið fluttur í fanganýlendu þar sem hann á að afplána fangelsisdóm sem hann hlaut.

Þegar einn lögmanna Navalní ætlaði að hitta hann í fangelsi í Vladímír-héraði í dag var honum sagt að skjólstæðingur sinn hefði verið fluttur annað.

„Fangelsið sagði að hann væri ekki þar og ekkert meira,“ segir Vadim Kobzev, einn lögmanna Navalní, við Reuters-fréttastofuna. Navalní hafi verið við góða heilsu daginn áður þegar annar lögmaður heimsótti hann í fangelsið.

Fangelsismálastofnun Rússlands vildi ekki gefa upp hvar Navalní væri haldið og vísaði til persónuverndarsjónarmiða.

TASS-ríkisfréttastofan sagði frá því á sínum tíma að Navalní hefði verið fluttur úr fangelsi í Moskvu í annað fangelsið í Vladímír þar sem hann yrði í sóttkví í síðasta mánuði. Síðan stæði til að flytja hann í IK-2-fanganýlenduna sem einnig er í Vladímír-héraði.

Navalní var fangelsaður við komuna til Rússlands frá Þýskalandi í janúar. Hann hafði verið í Berlín um nokkurra mánaða skeið eftir að hann var fluttur þangað á sjúkrahús þegar eitrað var fyrir honum með taugaeitrinu novichok í Rússlandi.

Rússnesk yfirvöld sökuðu Navalní um að hafa brotið gegn reynslulausn sem hann hlaut vegna annars fangelsisdóms með því að hafa ekki látið vita af sér á meðan hann lá í dái á sjúkrahúsi í Þýskalandi. Navalní sakar Vladímír Pútín, forseta Rússlands, um að hafa látið eitra fyrir sér en stjórnvöld í Kreml neita því.

Vestræn ríki telja fangelsun Navalní nú eiga sér pólitískar rætur og hafa krafist þess að hann verði látinn laus. Bandaríkin og Evrópusambandið hafa lagt refsiaðgerðir á Rússa vegna þess.

Fjöldi andstæðinga Pútín Rússlandsforseta, andófsfólks og blaðamanna hefur verið myrtur, fangelsaður eða látist við grunsamlegar aðstæður á undanförnum árum og áratugum.


Tengdar fréttir

Rússar hægja á Twitter

Yfirvöld í Rússlandi hafa hægt á Twitter þar í landi vegna deilna ríkisstjórnar Vladímírs Pútíns, forseta, við samfélagsmiðlafyrirtæki. Sérstaklega hefur verið hægt á hraða internetsins þegar kemur að því að hlaða inn myndum og myndböndum á Twitter.

Beita rússneska embættismenn refsiaðgerðum vegna eitrunarinnar

Ríkisstjórn Joes Biden, forseta Bandaríkjanna, opinberaði í dag refsiaðgerðir gegn rússneskum embættismönnum og fyrirtækjum vegna eitrunar stjórnarandstæðingsins, Alexei Navalní. Meðal annars beinast aðgerðirnar gegn háttsettum embættismönnum í ríkisstjórn Vladímírs Pútíns, forseta Rússlands.

Naval­ní fluttur í fanga­búðir: „Þær eru hræði­legar“

Rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní hefur verið fluttur í fangabúðir rétt fyrir utan Moskvu þar sem hann á að sitja af sér tveggja og hálfs árs fangelsisdóm. Navalní var fluttur úr varðhaldi í fangelsinu í Moskvu á fimmtudag og var aðstandendum hans ekki gert viðvart um tilfærslu hans.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×