Enski boltinn

Fyrrverandi leikmaður Liverpool fékk hjartaáfall

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mark González lék með Liverpool tímabilið 2006-07.
Mark González lék með Liverpool tímabilið 2006-07. getty/Clive Brunskill

Mark González, fyrrverandi leikmaður Liverpool og fleiri liða, dvelur á sjúkrahúsi í heimalandinu, Síle, eftir að hafa fengið hjartaáfallið. Eiginkona hans greindi frá tíðindunum á Instagram.

Liverpool birti færslu á Twitter fyrir stundu þar sem félagið sendir hinum 36 ára González góðar batakveðjur.

Liverpool keypti González frá Albacete á Spáni 2005 en hann var fyrst um sinn lánaður til Real Sociedad.

Sílemaðurinn kom svo til Liverpool 2006 og lék með liðinu tímabilið 2006-07. Hann spilaði 25 leiki með Liverpool í ensku úrvalsdeildinni og skoraði tvö mörk. Eftir tímabilið var González svo seldur til Real Betis. Þaðan fór hann til CSKA Moskvu þar sem hann varð tvívegis rússneskur meistari.

González lagði skóna á hilluna fyrir tveimur árum. Síðustu árs ferilsins lék hann í heimalandinu.

González, sem var eldsnöggur kantmaður, lék 56 landsleiki fyrir Síle og skoraði í þeim sex mörk. Hann var í síleska liðinu sem vann Suður-Ameríkukeppnina 2016.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.