Enski boltinn

Man. Utd ræður yfirmann knattspyrnumála í fyrsta sinn

Sindri Sverrisson skrifar
John Murtough og Darren Fletcher ráða miklu um þróun Manchester United næstu árin.
John Murtough og Darren Fletcher ráða miklu um þróun Manchester United næstu árin. Getty/Ash Donelon

Enska knattspyrnufélagið Manchester United kynnti í dag skipulagsbreytingar hjá fyrirtækinu sem meðal annars fela í sér ráðningu yfirmanns knattspyrnumála, í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Það er John Murtough sem verður yfirmaður knattspyrnumála en hann hefur starfað hjá United frá árinu 2014. Hann verður þar með nánasti yfirmaður Ole Gunnars Solskjær, knattspyrnustjóra United.

Murtough hefur verið yfirmaður þróunardeildar hjá United og mun nú bera ábyrgð á öllum atriðum sem tengjast fótboltanum hjá liðum félagsins.

Matt Judge verður hins vegar áfram með umsjón með kaupum og sölum á leikmönnum, og samningum við leikmenn, í samráði við Solskjær, en nú með Murtough sem yfirmann.

Darren Fletcher, sem vann fimm Englandsmeistaratitla og Evrópumeistaratitil sem leikmaður liðsins, kom inn í þjálfarateymi United í janúar en hefur nú verið ráðinn í nýtt starf sem fræðilegur stjóri (e. technical director). Fletcher mun meðal annars einbeita sér að langtímaþróun leikmanna og leikmannahópsins í heild, og brúa bilið á milli yngri liða félagsins og aðalliðsins.

United hefur því ekki ráðið inn nýja menn en breytt starfstitlum og hlutverkum þeirra sem fyrir eru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×