Erlent

Svipta Puigdemont og tvo til viðbótar frið­helgi

Atli Ísleifsson skrifar
Carles Puigdemont var forseti héraðsstjórnar Katalóníu á árunum 2016 til 2017.
Carles Puigdemont var forseti héraðsstjórnar Katalóníu á árunum 2016 til 2017. EPA/OLIVIER HOSLET

Meirihluti Evrópuþingsins hefur samþykkt að svipta Evrópuþingmanninn Carles Puigdemont friðhelgi. Puigdemont er fyrrverandi forseti héraðsstjórnar Katalóníu, en auk Puigdemont hafa tveir Evrópuþingmenn til viðbótar verið sviptir friðhelgi.

Puigdemont og nokkur fjöldi samstarfsmanna hans flúðu til Belgíu í október 2017 af ótta við handtöku í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Katalóníu sem stjórnvöld á Spáni höfðu lýst sem ólöglegri. Þing Katalóníu lýsti í kjölfar atkvæðagreiðslunnar yfir sjálfstæði héraðsins.

Árið 2019 náði Puigdemont, auk tveggja fyrrverandi ráðherra í héraðsstjórn Katalóníu, þeirra Toni Comin og Clöru Ponsati, sæti á Evrópuþinginu. Sem þingmenn hafa þeir notið friðhelgi og hefur ekki verið hægt að sækja þau til saka fyrir þátt sinn í atkvæðagreiðslunni og sjálfstæðisyfirlýsingunni.

Nefnd á vegum Evrópuþingsins sem hefur með lagaleg álitamál að gera lagði í síðasta mánuði til að þrímenningarnir yrðu sviptir friðhelgi.

DW segir frá því að um fjögur hundruð þingmenn hafi greitt atkvæði með því að svipta þingmennina friðhelgi, tæplega 250 greiddu atkvæði gegn, og 45 þingmenn sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Í yfirlýsingu frá Puigdemont kemur fram að hann ætli sér að áfrýja málinu til Evrópudómstólsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×