Erlent

Sam­þykktu tveggja billjóna efna­hags­að­gerðir Bidens vegna far­aldursins

Eiður Þór Árnason skrifar
Joe Biden, Bandaríkjaforseti, ræðir við fréttamenn í Hvíta húsinu um bóluefni í dag.
Joe Biden, Bandaríkjaforseti, ræðir við fréttamenn í Hvíta húsinu um bóluefni í dag. AP/Evan Vucci

Einn af hverjum þremur Bandaríkjamönnum hafa misst einhvern nákominn vegna Covid-19. Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í gær efnahagslegar mótvægisaðgerðir Joes Biden Bandaríkjaforseta til bregðast við áhrifum faraldursins.

Sem hluti af aðgerðunum mun stór hluti Bandaríkjamanna fá eingreiðslu upp á 1.400 Bandaríkjadali eða um 180 þúsund íslenskar krónur en 6,2 prósent atvinnuleysi mælist nú vestanhafs. Gert er ráð fyrir því að aðgerðapakkinn verði samþykktur í fulltrúadeild Bandaríkjaþings á þriðjudag þar sem Demókratar eru í meirihluta. Hann yrði þá þriðji pakkinn til þess að verða samþykktur í faraldrinum.

Heildarumfang efnahagsaðgerðanna nemur 1,9 billjónum Bandaríkjadala eða um 245 billjónum íslenskra króna (245.000.000.000.000). Nái þær fram að ganga verður hundruðum milljarða Bandaríkjadala úthlutað til ríkja og sveitarstjórna og fjárhagslegur stuðningur fyrir atvinnulausa framlengdur fram í september en úrræðið rennur að óbreyttu út um miðjan mars. Þá verður aukið fé sett í rannsóknir og skimun fyrir Covid-19 auk dreifingu bóluefna.

523 þúsund manns dáið vegna Covid-19

Kosið var eftir flokkslínum í öldungadeildinni og var frumvarpið samþykkt með 50 atkvæðum gegn 49 en einn þingmaður Repúblikana var fjarverandi. Biden sagði samþykkt frumvarpsins færa stjórnvöld stóru skrefi nær því að veita Bandaríkjamönnum þá aðstoð sem þeir þurfi á að halda.

Nærri 523 þúsund dauðsföll hafa verið skráð í Bandaríkjunum vegna faraldursins en samkvæmt greiningu The New York Times hefur einn af hverjum þremur Bandaríkjamönnum misst einhvern nákominn úr Covid-19. Um 1.578 einstaklingar hafa látist úr sjúkdómnum þar í landi á hverja milljón íbúa sem eru ríflega nítján sinnum fleiri miðað við höfðatölu en dáið hafa á Íslandi.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Slaka á aðgerðum þrátt fyrir viðvaranir

Yfirvöld í Texas í Bandaríkjunum ætla að afnema grímuskyldu og fjöldatakmarkanir þrátt fyrir viðvaranir alríkisstjórnarinnar og lækna um að kórónuveirufaraldurinn gæti farið aftur á flug.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.