Enski boltinn

Telur að Ras­h­ford þurfi á að­gerð að halda eftir Evrópu­mótið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Marcus Rashford er að glíma við meiðsli þessa dagana.
Marcus Rashford er að glíma við meiðsli þessa dagana. Simon Stacpoole/Getty Images

Henry Winter, einn virtasti blaðamaður Bretlandseyja þegar kemur að knattspyrnu, telur að Marcus Rashford sé að glíma við meiðsli á öxl og þurfi að fara í aðgerð þegar Evrópumótinu í sumar lýkur. Þetta kemur fram í tísti sem Winter birti á dögunum.

„Manchester United er með sérstakan leikmann í Marcus Rahford en hann er að spila þrátt fyrir að vera meiddur á öxl og þarf að öllum líkindum að fara í aðgerð eftir EM. Rashford mun alltaf ýta líkama sínum út á ystu mörk, sama hversu mikinn verk hann er með vegna þess að hann elskar að spila fótbolta og hann elskar United en hann þarf á hvíld að halda,“ segir í tísti Winter.

Á síðustu leiktíð spilaði Rashford í gegnum gríðarlegan verk í baki. Það endaði með því að hann kom inn af bekknum í leik gegn Wolves þann 15. janúar 2020 en þurfti að fara af velli skömmu síðar vegna meiðslanna. Ole Gunnar Solskjær – þjálfari Manchester United – var í kjölfarið gagnrýndur fyrir að spila leikmanni sem var langt frá því að vera leikfær.

Rashford átti að vera frá það sem eftir lifði tímabils en vegna kórónufaraldursins var ensku deildinni frestað og því náði Rashford síðustu leikjum liðsins er deildin fór aftur af stað. Á endanum missti Rashford aðeins af sjö leikjum. Hann skoraði 17 mörk og lagði upp níu í 31 leik í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

Rashford hefur ekki verið líkur sjálfum sér í undanförnum leikjum er Man Utd hefur hikstað verulega. Ef til vill spila meiðslin þar inn í en svo virðist sem Solskjær treysti ekki liði sínu til að spila án enska landsliðsmannsins sem hefur skorað níu mörk og lagt upp önnur átta í þeim 27 deildarleikjum sem hann hefur spilað á leiktíðinni.

Þá skoraði Rashford sex mörk í sex leikjum í Meistaradeild Evrópu, eitt í þremur leikjum til þessa í FA-bikarnum ásamt því að leggja upp tvö og að lokum eitt í tveimur leikjum í Evrópudeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×