Erlent

Þýsku leyni­þjónustunni heimilt að fylgjast með AfD

Atli Ísleifsson skrifar
Alexander Gauland, annar leiðtoga AfD á þýska þinginu.
Alexander Gauland, annar leiðtoga AfD á þýska þinginu. Getty

Þýska leyniþjónustan hefur breytt skilgreiningu á hægriþjóðernisflokknum Valkosti fyrir Þýskaland (þ. Alternativ für Deutschland (AfD)) á þann veg að hann er nú skilgreindur sem möguleg öfgahreyfing sem kunni að ógna lýðræðinu í landinu. Þessi nýja skilgreining veitir leyniþjónustunni auknar heimildir til að fylgjast með starfsemi flokksins á landsvísu.

Þýskir fjölmiðlar greindu frá þessu í gær. AfD varð í þingkosningunum 2017 þriðji stærsti flokkur landsins og er í dag sá stærsti af fjórum stjórnarandstöðuflokkum á þingi.

Leyniþjónustan Bundesamt für Verfassungsschutz (BFV) skilgreinir flokkinn nú sem hreyfingu sem kunni að ógna lýðræðinu í landinu, en stjórnarskrá landsins veitir BFV þá ákveðnar heimildir til að fylgjast með starfseminni, með ákveðnum takmörkunum þó. Þannig verður leyniþjónustunni nú ekki heimilt að fylgjast með þingmönnum AfD á þýska þinginu eða á Evrópuþinginu.

Liðsmenn Flügel til skoðunar

Ákvörðun þýsku leyniþjónustunnar um breytta skilgreiningu á AfD á að hafa verið tekin í síðustu viku. Var þar vísað í nýja, rúmlega þúsund síðna skýrslu þar sem saman hafa verið tekin upplýsingar um orð og gjörðir fjölda meðlima AfD. Er þar sérstaklega fjallað um liðsmenn Flügel, ákveðins hóps manna sem talinn er hafa sterk ítök í flokknum.

Leiðtogar AfD, þingmennirnir Alexander Gauland og Alice Weidel, segja ákvörðun leyniþjónustunnar skorta bæði rökstuðning og lagalega stoð.

Hafa þegar verið til skoðunar í einstökum sambandsríkjum

Yfirvöld í Brandenburg, Saxlandi-Anhalt, Þýringalandi og Saxlandi hafa þegar fylgst sérstaklega með starfsemi flokksins, en þessi breyting hjá leyniþjónustunni veitir henni heimild til að fylgjast með starfsemi flokksins á landsvísu. Ungliðahreyfingar AfD hafa víða verið sérstaklega til skoðunar hjá yfirvöldum. 

AfD var stofnað 2013 og hafa leiðtogar flokksins talað mikið gegn ríkjandi valdakerfi og sömuleiðis straumi innflytjenda til landsins.

Þingkosningar fara fram í Þýskalandi þann 26. september næstkomandi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.