Erlent

Fidesz segir skilið við EPP á Evrópu­þinginu

Atli Ísleifsson skrifar
Viktor Orban hefur gegnt embætti forsætisráðherra Ungverjalands frá árinu 2010.
Viktor Orban hefur gegnt embætti forsætisráðherra Ungverjalands frá árinu 2010. EPA/Stephanie Lecocq

Evrópuþingmenn ungverska stjórnarflokksins Fidesz hafa ákveðið að segja skilið við þinghóp kristilegra demókrata (EPP) á Evrópuþinginu.

Frá þessu greindi Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands og leiðtogi Fidesz, fyrr í dag, en tilkynningin kemur í kjölfar reglubreytinga hjá EPP sem hefði gefið þingflokknum möguleika á að vísa þingmönnum Fidesz úr þinghópnum.

Mikill meirihluti Evrópuþingmanna EPP greiddi atkvæði með reglubreytingunni. Af 180 þingmönnum greiddu 148 þingmenn atkvæði með, en 28 lögðust gegn tillögunni og fjórir sátu hjá.

Innan EPP, sem er stærsti einstaki þinghópurinn á Evrípuþinginu, er að finna marga af hófsamari miðju- og hægriflokkum frá aðildarríkjum ESB. Margir þeirra hafa lengi viljað losna við þingmenn Fidesz úr félagsskapnum.

Orban hefur gegnt embætti forsætisráðherra Ungverjalands frá árinu 2010 og hefur stjórn hans sætt mikilli gagnrýni, meðal annars af Evrópusambandinu, fyrir tilraunir til að grafa undan sjálfstæði dómskerfis landsins og lýðræðinu sjálfu.

Alls eru Evrópuþingmenn Fidesz þrettán talsins og er ekki ljóst að svo stöddu þeir muni leita á náðir annars þinghóps. Telja einhverjir að þeir muni leita til þinghópsins ECR þar sem er meðal annars er að finna Evrópuþingmenn úr röðum Svíþjóðardemókrata og pólska stjórnarflokknum Lögum og réttlæti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×