Erlent

Eldflaugum skotið að bandarískri herstöð í Írak

Samúel Karl Ólason skrifar
Ain al-Asad herstöðin í Írak.
Ain al-Asad herstöðin í Írak. AP/Nasser Nasser

Minnst tíu eldflaugum hefur verið skotið að herstöð í vesturhluta Íraks þar sem bandarískir hermenn og írakskir halda til. Írakski herinn segir árásina ekki hafa valdið miklum skaða.

Upplýsingar um mögulegt mannfall liggja þó ekki fyrir en AFP fréttaveitan hefur heimildir fyrir því að verktaki við herstöðina, almennur borgari, hafi fallið.

Eldflaugunum var skotið að Ain al-Asad herstöðinni í Anbarhéraði. Árásin er til rannsóknar hjá írakska hernum sem segir að skotstaðurinn hafi verið fundinn.

Í síðustu viku gerðu Bandaríkin loftárás á sveit, sem studd er af yfirvöldum í Íran, á landamærum Íraks og Sýrlands. Sú árás var svar við eldflaugaárásum sveitar Írans í Írak gegn bandarískum hermönnum, þar á meðal einni við flugvöllinn í Irbil þar sem verktaki frá Filippseyjum dó.

Sjá einnig: Einn dó og átta særðust í eldflaugaárás á herstöð Bandaríkjamanna

AP fréttaveitan segir áhyggjur uppi um að Bandaríkin og Íran muni skiptast á árásum á næstunni, eins og gerðist í fyrra. Þá stigmögnuðust árásirnar upp í það að Bandaríkin réðu íranska hershöfðingjann Qassim Soleimani af dögum í loftárás í Bagdad.

Þá stendur til að Páfinn heimsæki Írak um næstu helgi. Til stendur að hann ferðist víðsvegar um landið.

Hér má sjá myndband af eldflaugum frá Íran lenda í Ain al-Asad herstöðinni í fyrra, eftir að Bandaríkin felldu Soleimani. Sama kvöld var farþegaflugvél frá Úkraínu skotin niður yfir höfuðborg Írans.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×