Erlent

Tveimur eldflaugum var skotið að flugvélinni

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá miningarathöfn í Kanada.
Frá miningarathöfn í Kanada. AP/Jonathan Hayward

Hermenn í Íran skutu tveimur eldflaugum að úkraínskri farþegaþotu sem verið var að fljúga frá Teheran í síðustu viku. Eldflaugunum var skotið með tuttugu og þriggja sekúndna millibili og frá herstöð skammt frá flugvellinum. Þetta sýnir myndband úr öryggismyndavél og útskýrir það af hverju samband við flugvélina slitnaði áður en hún hrapaði.

Flugvélin þoldi þá báðar sprengingarnar. Flugmennirnir voru að reyna að snúa við til flugvallarins og hafði eldur kviknað í flugvélinni. Skömmu seinna sprakk hún og hrapaði til jarðar.

Um borð í flugvélinni voru farþegar frá mörgum löndum. Flestir þó frá Íran, eða 82. 57 voru frá Kanada en margir þeirra voru með tvöfalt ríkisfang, og ellefu frá Úkraínu.

Blaðamenn New York Times hafa notað myndbönd, opinber gögn og viðtöl til að teikna ítarlega heildarmynd af þessari stuttu flugferð, þar sem 176 dóu.

Yfirvöld Íran segja að mannleg mistök hafi leitt til þess að flugvélin hafi verið skotin niður. Ein af nokkrum ástæðum sem gefnar hafa verið er að hermenn hafi talið að um eldflaug frá Bandaríkjunum væri að ræða. Nokkrum klukkustundum áður höfðu Íranar skotið eldflaugum á herstöðvar í Írak, þar sem bandarískir hermenn halda til, og áttu von á hefndaraðgerðum.

Það að flugvélin hafi verið talin eldflaug hefur þó vakið upp spurningar þar sem ferill hennar var á skjön við eldflaugar. Flugvélin var í flugtaki þegar fyrri eldflauginni var skotið. Þar að auki var hún ein af 19 flugvélum sem höfðu tekið á loft frá flugvellinum í kjölfar árásanna á Írak.

Fyrst héldu Íranar því fram að stefnu flugvélarinnar hafi verið breytt skyndilega og henni flogið í átt að viðkvæmri herstöð. Það var svo dregið til baka þegar bent var á að það væri ekki í samræmi við gögn frá flugvélinni.

BBC hefur eftir fjölmiðlum í Íran að aðilinn sem tók fyrsta myndbandið sem sýndi að eldflaug hefði grandað flugvélinni, hafi verið handtekinn. Til standi að ákæra hann í tengslum við þjóðaröryggi.

Íranskur blaðamaður í London, sem birti myndbandið upprunalega, segir heimildarmann sinn þó ekki hafa verið handtekinn. Hann segir rangan aðila hafa verið handtekinn og sakar her Íran um lygar.

Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Íran, hrósaði her landsins og sagði forsvarsmenn hans hafa sýnt hugrekki með því að játa að hafa skotið flugvélina niður fyrir mistök. Hann sagði þar að auki að hann og Hassan Rouhani, forseti Íran, hefðu ekki komist að því að flugvélin hafi verið skotin niður fyrr en á föstudaginn í síðustu viku, þegar herinn viðurkenndi það.

Það vekur spurningar varðandi það hve mikið völd stjórnvöld Íran hafa.

Það tók herinn þrjá daga að viðurkenna að hafa skotið flugvélina niður, þó þeir hafi án efa vitað hvað kom fyrir nánast samstundis. Embættismenn í Úkraínu hafa sagt að Íranar hefðu ef til vill aldrei viðurkennt það ef úkraínskir rannsakendur hefðu ekki fundið ummerki sprengjubrota á braki úr flugvélinni.

Byltingarverðir Íran, sem er stærsta og valdamesta deild hers landsins, heyrir eingöngu undir Ayatollah Ali Khamenei, æðstaklerk Íran, sem stjórnar landinu.


Tengdar fréttir

Mörgum spurningum ósvarað vegna flugvélarinnar

Embættismenn í Úkraínu segja að Íranar hefðu mögulega aldrei viðurkennt sök ef úkraínskir rannsakendur hefðu ekki fundið ummerki sprengibrota á braki úr flugvélinni.

Úkraína vill skaðabætur og ítarlega rannsókn

Forseti Úkraínu kallaði í yfirlýsingu sinni í dag að Íran hefji ítarlega rannsókn á því að úkraínsk farþegaflugvél var skotin niður af íranska hernum skömmu eftir brottför frá Tehran.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×