Erlent

„Buttergate“ skekur Kanada: Smjörið bráðnar ekki og bændur skipa nefnd

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hver kannast ekki við ergelsið sem skapast þegar hart smjörið vill ekki á brauðið?
Hver kannast ekki við ergelsið sem skapast þegar hart smjörið vill ekki á brauðið?

Ein er sú spurning sem virðist nú brenna á kanadískum matreiðslumönnum, matreiðslubókahöfundum og almennum neytendum: Af hverju mýkist smjörið ekki lengur við stofuhita?

Miklar deilur hafa skapast um málið, meðal annars á samfélagsmiðlum, þar sem finna má færslur undir myllumerkinu #buttergate. 

Umræðurnar ku mega rekja til tísts matreiðslubókahöfundarins Julie Van Rosendaal, sem varpaði fram þeirri spurningu fyrr í mánuðinum hvort aðrir hefðu tekið eftir því að smjörið mýktist ekki, jafnvel þótt það væri geymt við stofuhita.

Mörg hundruð manns könnuðust við að hafa upplifað sömu furðulegheit og áður en langt um leið var komin fram samsæriskenning um orsök hins síharða smjörs.

Samkvæmt kanadísku mjólkurbændasamtökunum jókst eftirspurn eftir smjöri um 12 prósent í fyrra, líklega vegna kórónuveirufaraldursins. Til að mæta aukinni eftirspurn gripu margir bændur til ýmissa ráða til að auka framleiðsluna.

Í marga áratugi hafa kúm verið gefin bætiefni úr pálmaolíu til að stuðla að aukinni mjólkuframleiðslu og hærri fituprósentu. Sumir sérfræðingar segja bætiefnin auka hlutfall mettaðrar fitu í mjólkinni en fyrrnefnd samsæriskenning gengur út á að þar sem þetta hlutfall hafi hækkað þurfi meiri hita til að bræða smjörið og því smyrjist það ekki jafn vel og áður.

Sylvain Charlebois, framkvæmdastjóri rannsóknarstofu landbúnaðarframleiðslu við Dalhousie University, segir smjörið sannarlega hafa harðnað síðustu misseri. Notkun pálmaolíu við mjólkurframleiðslu sé lögleg en siðlaus þar sem olían getur aukið líkurnar á hjartasjúkdómum og framleiðsla hennar sé afar slæm fyrir umhverfið.

Kanadískir mjólkurbændur neita ásökununum og benda á að notkun pálmaolíunnar þekkst víðar, meðal annars í Bretlandi og Bandaríkjunum. Þeir hafa engu að síður ákveðið að setja á laggirnar nefnd sem á að komast til botns í smjörmálinu mikla.

BBC greindi frá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×