Erlent

Verðandi faðir dó í sprengingu við undirbúning hverskynsveislu

Samúel Karl Ólason skrifar
Ástæða sprengingarinnar liggur ekki fyrir enn, né hvað mennirnir voru að smíða, annað en einhverskonar pípu.
Ástæða sprengingarinnar liggur ekki fyrir enn, né hvað mennirnir voru að smíða, annað en einhverskonar pípu. Getty/Larry W. Smith

Bandarískur maður sem átti von á sínu fyrsta barni dó á sunnudaginn. Þá var hann að smíða sérstakan búnað til að nota við athöfn þar sem hann og kona hans ætluðu að opinbera kyn barns þeirra, í svokallaðri hverskynsveislu.

Búnaðurinn sprakk og bróðir manns slasaðist einnig.

Lögregluþjónar voru kallaðir til vegna sprengingarinnar og komu þeir að Christopher Pekny, sem var 28 ára gamall, látnum. Michael bróðir hans, sem er 27 ára gamall, slasaðist, samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni.

New York Times segir ekki liggja fyrir nákvæmlega hvað olli sprengingunni. Búnaðurinn sem hafi sprungið hafi verið einhvers konar pípa sem nota átti í áðurnefndri athöfn.

Peter Pekny, eldri bróðir Christopher og Michael segir þá báða hafa verið góða í því að gera við hluti og þeir hafi mikið dundað sér við það. Hann sagðist ekki vita hvað olli sprengingunni.

Þessar hverskynsveislur hafa verið mikið milli tannanna á fólki undanfarin ár. Dauðsföll og stórir skógar- og gróðureldar hafa verið raktir til þeirra.

Minnst tveir hafa dáið frá 2019 og sá síðasti í Michigan í þessum mánuði. Hann dó þegar hann varð fyrir braki úr lítilli fallbyssu sem notuð var til að opinbera kyn barns fólks. Sá var gestur á athöfninni og var 26 ára gamall.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.