Erlent

Segja Kínaferðina ekki hafa skilað miklum árangri

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá blaðamannafundinum í dag.
Frá blaðamannafundinum í dag. AP/Ng Han Guan

Vísindamenn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar segja Kínaheimsókn þeirra ekki hafa skilað miklum árangri varðandi skilning vísindamanna á nýju kórónuveirunni. Hins vegar hafi teymi stofnunarinnar tekist að auka þekkingu varðandi upphaf faraldursins.

Vísindamennirnir sem um ræðir luku nýverið mánaðarheimsókn til Wuhan í Kína, þar sem kórónuveiran greindist fyrst í mönnum. Leiðtogi teymisins sagði á blaðamannafundi í dag að veiran hafi að öllum líkindum borist úr dýrum í menn og að kenningar um að hún hefði borist frá rannsóknarstofu væru rangar.

Meðal þeirra sem hafa varpað þeirri kenningu fram eru Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, og embættismenn í ríkisstjórn hans.

Markmið vísindamanna WHO var að reyna að finna upplýsingar um það hvernig veiran barst fyrst í menn. Fyrstu vísindamennirnir lentu í Kína þann 6. janúar og var þeim þá meinuð innganga í landið. Viðræður um verkefnið á milli WHO og yfirvalda í Kína höfðu þá staðið yfir í marga mánuði.

Teymið heimsótti meðal annars fiskmarkað þar sem einhverjir hafa talið að veiran hafi borist snemma í menn og sagði einn sérfræðingur teymisins að þar hefðu verið dýr sem gætu hafa borið veiruna. Þar á meðal eru kanínur og rottur.

Næsta skref yrði að skoða bóndabæi á svæðinu.

Fram kom á blaðamannafundinum að teymið hefði ekki fundið vísbendingar um að nýja kórónuveiran hefði verið í umfangsmikilli dreifingu löngu áður en hún greindist fyrst.

Leiðtogi teymisins sagði líkur á því að veiran hefði borist fyrst í menn úr leðurblökum. Hann sagði einnig að það kæmi til greina að veiran hefði borist til Kína í frosnum matvælum og það þyrfti að rannsaka frekar.

Yfirvöld í Kína hafa haldið því fram að veiran hafi borist til Kína frá öðrum ríkjum og hefur því ítrekað verið lýst yfir að leifar veirunnar hafi fundist í frosnum matvælum. Samkvæmt áðurnefndum leiðtoga teymisins er talið að veiran geti lifað af í frosti en óljóst sé hvort hún geti borist í menn úr frosnum matvælum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.