Erlent

Kínverjar reyni að endurskrifa sögu Covid-19

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá skimun fyrir Covid-19 í Wuhan í maí.
Frá skimun fyrir Covid-19 í Wuhan í maí. EPA/LI KE CHINA OUT

Um ári eftir að nýja kórónuveiran stakk fyrst upp kollinum í Wuhan í Kína er útlit fyrir að ráðamenn í Kína séu að reyna að endurskrifa sögu veirunnar og Covid-19, sjúkdómsins sem hún veldur. Ríkismiðlar Í Kína hafa fjallað ítarlega um það að veiran hafi fundist utan landamæra Kína fyrir desember í fyrra.

People‘s Daily, dagblað í eigu kínverska ríkisins, staðhæfði til að mynda á Facebook í síðustu viku að öll sönnunargögn bentu til þess að veiran ætti ekki uppruna í Kína. Vitnað var í fyrrverandi sérfræðing hjá Sóttvarnastofnun Kína sem staðhæfði þetta.

Í umfjöllun Financial Times segir að ein kenningin snúi að því að veiran hafi borist til Kína í frosnum matvælum. Það ku vera talið mjög hæpið.

Blaðamenn Guardian leituðu viðbragða hjá utanríkisráðuneyti Kína en talsmaður þess sagði að mikilvægt væri að gera greinarmun á því hvar veiran hefði greinst fyrst og hvar hún hefði fyrst stökkbreyst á þann veg að hún gæti borist í menn. Það væri enn óljóst.

Þá segir Guardian að kínverskir vísindamenn hafi jafnvel sent vísindagrein til birtingar í Lancet. Hún hefur enn ekki verið yfirfarin en þar er því einnig haldið fram að fyrsta smitið milli manna hafi ekki átt sér stað í Wuhan heldur í Indlandi.

Fjallað er um þessa grein í kínverska miðlinum Global Times í dag og er þar gefið í skyn að Michael Ryan, einn af yfirmönnum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) og aðrir sérfræðingar hafi tekið undir þessi sjónarmið. Vísað var til ummæla hans þar sem hann sagði að einhver upprunaleg tilfelli hefðu ekki verið tengd við markað í Wuhan, sem mörg tilfelli voru rakin til.

Ummæli hans um að rannsókn WHO á uppruna veirunnar þyrfti þó að hefjast í Wuhan hafa þó sjaldan fylgt þeim fyrri í kínverskum fjölmiðlum, samkvæmt FT.

Ryan sagði þar að auki á föstudaginn að það væru miklar tilgátur að uppruni veirunnar væri ekki í Kína. Það væri eðlilegast að hefja rannsókn á uppruna veiru á staðnum þar sem hún greinist fyrst í mönnum.

Talið er að veiran komi upprunalega frá leðurblökum en ekki er vitað hvenær né hvar hún barst fyrst í menn. Hún greindist þó fyrst í Kína og eins og áður segir voru mörg tilfelli tengd við tiltekin markað í Wuhan þar sem lifandi dýr voru seld til manneldis.

Í grein Guardian segir að yfirvöld í Kína hafi í raun staðið í vegi rannsókna á uppruna veirunnar. Rannsakendur WHO sem heimsóttu Kína fyrr á þessu ári gátu ekki heimsótt markaðinn sem hefur verið tengdur við uppruna veirunnar og í rauninni var þeim ekki gert kleift að fara til Wuhan. Þá hafa þeir ekki fengið að fara aftur til Kína.

Ryan sagði í síðustu viku að það væri gífurlega mikilvægt að vísindamenn gætu rannsakað uppruna veirunnar. Hann sagðist vonast til þess að rannsakendurnir gætu farið bráðlega til Kína, samkvæmt AP fréttaveitunni.

„Augljóslega þurfum við öll að skilja upphafi veirunnar. Við þurfum að skilja hvaðan hún kemur og þá til að skilja hvar hún geti komið upp aftur í framtíðinni. Ég hef fulla trú á því að kollegar okkar í Kína eru jafn óþreyjufullir og við varðandi það að finna þau svör,“ sagði Ryan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×