Tíðindin koma í kjölfar fregna um að frumniðurstöður nýrrar rannsóknar bendi til að bóluefni AstraZeneca og Oxford-háskóla veiti minni vernd gegn afbrigðinu sem fannst fyrst í Suður-Afríku.
Heilbrigðisyfirvöld í Bretlandi og víðar reyna nú að hamla útbreiðslu afbrigðisins en áhyggjur eru uppi um að það sé meira smitandi en fyrri afbrigði og þoli betur þau bóluefni sem komin eru á markaðinn. Yfir hundrað tilfelli suður-afríska afbrigðisins hafa greinst í Bretlandi. Hið svokallaða breska afbrigði er þó enn ráðandi þar í landi en bóluefnið er sagt virka vel gegn því afbrigði veirunnar.
Meðalaldur í rannsókninni 31 árs
Sara Gilbert, yfirrannsakandi Oxford-teymisins, sagði í samtali við breska ríkisútvarpið í dag að teymið væri að vinna að nýrri gerð bóluefnisins sem innihaldi broddpróteinið sem finnist á stökkbreytta afbrigðinu.
„Það virðist mjög líklegt að nýja gerðin verði tilbúin til notkunar í haust,“ sagði Gilbert.
Tvö þúsund einstaklingar tóku þátt í áðurnefndri rannsókn sem telst heldur lítið þegar kemur að klínískum rannsóknum og hefur hún ekki enn hlotið jafningjarýni. Voru flestir þátttakenda heilbrigðir og ungir að aldri en meðalaldur þátttakenda var 31 árs.
Frumniðurstaða rannsóknarinnar er að Oxford-AstraZeneca bóluefnið veiti einungis „lágmarksvernd“ gegn vægum sjúkdómsáhrifum suður-afríska afbrigðisins.
Bóluefni Pfizer virkar vel gegn afbrigðinu
Að sögn Oxford-háskóla var ekki unnt að meta vernd bóluefnisins gegn miðlungs- og alvarlegum áhrifum sjúkdómsins, sjúkrahúsinnlögnum eða dauðsföllum í ljósi þess að almennt sé minni áhætta á því að ungir og heilbrigðir einstaklingar veikist alvarlega.
Fyrsta sending af bóluefni AstraZeneca kom til Íslands í gær. 1.200 skammtar bárust af efninu sem ættu að duga fyrir um 600 manns. Bóluefnið fékk skilyrt markaðsleyfi í Evrópu í lok janúar.
Greint var frá því í janúar að bóluefni Pfizer og BioNTech við Covid-19 virðist virka vel gegn bæði breska og suður-afríska afbrigði kórónuveirunnar. Frekari rannsókna er þó þörf til að staðfesta virknina.