Enski boltinn

Jóhann Berg tryggði Burnl­ey stig og níu menn New­cast­le héldu út

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jóhann Berg þandi netmöskvana í dag.
Jóhann Berg þandi netmöskvana í dag. Clive Brunskill/Getty Images

Jóhann Berg Guðmundsson skoraði eina mark Burnley í 1-1 jafntefli gegn Brighton & Hove Albion í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Þá vann Newcastle United 3-2 sigur á Southampton.

Lewis Dunk kom Brighton yfir í fyrri hálfleik eftir sendingu Pascal Gross og staðan því 1-0 gestunum í vil er flautað var til hálfleiks. Skömmu áður en Dunk skoraði þá nældi Jóhann Berg sér í gult spjald.

Hann bætti fyrir það í síðari hálfleik með fyrsta marki sínu á tímabilinu þegar hann fylgdi eftir skoti Erik Pieters. Staðan orðin 1-1 og reyndust það lokatölur leiksins. Brighton nú unnið þrjá af síðustu fimm leikjum sínum og gert tvö jafntefli.

Newcastle United vann góðan 3-2 sigur á Southampton í hinum leiknum sem var að klárast rétt í þessu. Joseph Willock – lánsmaður frá Arsenal – kom heimamönnum yfir eftir 16. mínútna leik. 

Tíu mínútum síðar tvöfaldaði Miguel Almiron forystu heimamanna en Takumi Minamino – lánsmaður frá Liverpool – minnkaði muninn í 2-1 skömmu síðar. Undir lok fyrri hálfleiks skoraði Almiron annað mark sitt og kom Newastle 3-1 yfir. 

Southampton byrjaði síðari hálfleikinn af krafti. James Ward-Prowse skoraði úr stórkostlegri aukaspyrnu á 48. mínútu og mínútu síðar fékk Jeff Hendrick sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Newcastle léku því það sem eftir lifði leiks með aðeins 10 leikmenn. Raunar enduðu þeir leikinn með níu leikmenn því Fabian Schär fór meiddur af velli þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka. Heimamenn héldu samt sem áður út og unnu mikilvægan 3-2 sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×