Erlent

Telur Trump ekki eiga að fá minnis­blöð um þjóðar­öryggis­mál

Sylvía Hall skrifar
Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti. Getty/Stefani Reynolds

Joe Biden Bandaríkjaforseti telur óráðlegt að Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, fái aðgang að minnisblöðum um þjóðaröryggismál. Hefð er fyrir því að fyrrum forsetar fái upplýsingar um þjóðaröryggismál, en að mati Biden er Trump of óútreiknanlegur.

„Ég held það sé engin þörf á því að hann fái aðgang að minnisblöðum,“ sagði Biden þegar hann var spurður út í málið í viðtali við CBS. Hann efist um að Trump sé treystandi.

„Hver er tilgangurinn í því að veita honum upplýsingar? Hver væri tilgangurinn annar en að hann gæti óvart sagt eitthvað?“

Biden hefur ekki farið leynt með óánægju sína varðandi forsetatíð Trump, ekki frekar en aðrir samflokksmenn hans í Demókrataflokknum. Hann segist hafa „hlaupið eins hratt og hann gat“ í kosningabaráttunni til að sigra Trump, enda hafi hann alltaf staðið í þeirri trú að forveri sinn væri vanhæfur til að gegna embættinu.

Hann neitaði þó að gefa upp skoðun sína á því hvort sakfella ætti Trump fyrir embættisglöp, en réttarhöld gegn forsetanum fyrrverandi hefjast í öldungadeildinni í næstu viku. Trump er því fyrsti forsetinn sem er ákærður tvisvar til embættismissis og segir Biden það undir þinginu komið að ákveða sekt hans.


Tengdar fréttir

Trump ætlar ekki að bera vitni

Ráðgjafi Trump segir fyrrverandi forsetann ekki ætla að bera vitni um þann ákærulið gegn honum sem snýr að því að hvetja til uppreisnar. Réttarhöld vegna ákæru fyrir embættisbrot hefjast í öldungadeild Bandaríkjanna þann 9. febrúar næstkomandi.

„Brjálaðasti“ fundur sem haldinn var í Hvíta húsi Trumps

Fjórum dögum eftir að kjörmenn komu saman í öllum ríkjum Bandaríkjanna og lýstu Joe Biden sigurvegara í forsetakosningunum í nóvember gekk fjögurra manna hópur á fund Donalds Trump í Hvíta húsinu. Þau voru mætt til að sannfæra forsetann fráfarandi um að beita valdi sínu til að sitja áfram í Hvíta húsinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×