Innlent

Þórólfur væntir samningsdraga frá Pfizer

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði í viðtali fyrr í dag að viðræður við Pfizer væru ekki á þeim stað að tilefni væri að segja frá þeim. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist bíða samningsdraga frá Pfizer.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði í viðtali fyrr í dag að viðræður við Pfizer væru ekki á þeim stað að tilefni væri að segja frá þeim. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist bíða samningsdraga frá Pfizer. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir kannast ekki við að neinn samningur sé í höfn við lyfjaframleiðandann Pfizer. Hann segist bíða eftir samningsdrögum frá lyfjaframleiðandanum og í framhaldinu verði að taka afstöðu til þess hvort samningurinn sé ásættanlegur fyrir Íslands. Fundur er fyrirhugaður í næstu viku.

Hávær orðrómur hefur verið á kreiki undanfarna daga að samningur við Pfizer sé í höfn og að því sé von á mörg hundruð þúsund skömmtum af bóluefninu til landsins svo hægt verði að framkvæma rannsóknina. Þessi orðrómur var til umræðu í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag þar sem Þórólfur var gestur.

Þáttastjórnendur sögðu orðróminn það háværan að samningur væri sagður í höfn og jafnvel komin dagsetning á komu bóluefnis til landsins.

„Það er undarlegt. Ég veit um enga dagsetningu og engan samning. Ég hef ekki séð nein drög, það hafa engin samningsdrög komið,“ sagði Þórólfur. Hann viti ekki hvaðan þessi orðrómur sé kominn um dagsetningar og annað slíkt.

„Það eina sem ég get sagt er að ekkert af því sem þið eruð að tala um er rétt,“ sagði Þórólfur.

„Við erum í samskiptum við Pfizer og munum eiga með þeim fund í næstu viku. Við erum að bíða eftir þessum samningsdrögum sem við vonumst til að fá sem fyrst. Þá vitum við meira hvar við stöndum og þurfum að taka afstöðu til þess. Það er bara ekki komið.“

Hann segist þó jákvæður á verkefnið og rannsóknina.

„Tengiliðir okkar við Pfizer sem við höfum rætt við hafa verið mjög jákvæðir. Það er kannski ekki nóg,“ segir Þórólfur.

„Þetta mál kemst ekki í neina höfn fyrr en við fáum samning og sjáum um hvað málið snýst raunverulega og endanlega. Það er ekki fyrr en við fáum samningsdrög í hendurna.“

Málið verði bara að skýrast.

„Það er það sem við erum að bíða eftir að við fáum einhvern samning eða samningsdrög sem við getum þá skoðað. Er þetta ásættanlegt eða ekki? Menn taka afstöðu til þess. Þá endar þetta annaðhvort með já eða nei. Þá er bara málið komið í höfn og allir fá að vita hvernig það er. En þangað til er ekkert meira um það að segja.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×