Innlent

Svandís um viðræður við Pfizer: „Ekkert sem að hægt er að segja frá“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafa staðið í ströngu undanfarið ár. Tæplega ár er liðið frá fyrsta Covid-19 smitinu sem greindist hér á landi.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafa staðið í ströngu undanfarið ár. Tæplega ár er liðið frá fyrsta Covid-19 smitinu sem greindist hér á landi. Vísir/Vilhelm

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir boltann hjá lyfjaframleiðandanum Pfizer varðandi mögulegan samning við Ísland um mikið magn bóluefnis sem gæti borist til Íslands í rannsóknarskyni. Þannig mætti bólusetja stóran hluta þjóðarinnar á skömmum tíma.

Svandís var að loknum ríkisstjórnarfundi í hádeginu spurð að því hvort eitthvað væri að frétta af viðræðunum við Pfizer.

„Ekkert sem að hægt er að segja frá,“ sagði Svandís. Mikið hefur verið hvíslað og hávær orðrómur um að vel miði í viðræðum við lyfjaframleiðandann. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hafa farið fyrir viðræðunum við Pfizer sem staðið hafa í nokkurn tíma nú.

Kári hefur ekki talið tímabært að ræða málið undanfarna daga. Þórólfur sagði á upplýsingafundi í gær að von væri á skilaboðum frá lyfjafyrirtækinu á næstu dögum.

„Það er ekki kominn samningur og boltinn er ennþá hjá Pfizer,“ sagði Þórólfur í gær.

Hann sagðist þó telja heilsugæsluna hér á landi vel í stakk búna til að bólusetja landsmenn hratt og örugglega ef til þess kæmi að mikið magn bóluefnis bærist hingað á skömmum tíma.

„Ég held að við verðum tilbúin i hvaða leik sem er.“

Þórólfur sagði í viðtali við Morgunblaðið fyrr í vikunni að ef samningar náist sé ekki um að ræða kaup á bóluefni heldur verði bóluefnið sent hingað í þágu rannsóknar. Með rannsókninni eigi að svara rannsóknarspurningu um það hvernig svona bóluefni virki á samfélag, hvernig það virki á svona faraldur innanlands.


Tengdar fréttir

Krár og skemmtistaðir fá að hafa opið til klukkan 22

Krár, skemmtistaðir og spilakassasalir mega frá og með mánudeginum 8. febrúar hafa opið til klukkan 22 á kvöldin eins og veitingastaðir. Fjöldatakmörk í sviðslistum, útförum og fleira aukast úr 100 í 150. Þá fá fleiri að sækja líkamsræktarstöðvar. Áfram er tveggja metra regla í landinu og almennt miðað við tuttugu manna samkomubann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×