Erlent

Gera kröfu um nei­kvæða niður­stöðu úr sýna­töku á landa­mærunum

Atli Ísleifsson skrifar
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, hefur staðið í ströngu síðustu mánuði.
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, hefur staðið í ströngu síðustu mánuði. Getty/Thierry Monasse

Sænsk stjórnvöld munu frá og með laugardeginum næsta gera kröfu um að útlendingar sem vilja ferðast inn í landið framvísi neikvæðri niðurstöðu úr Covid-sýnatöku á landamærunum. Þetta er gert til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar.

Innanríkisráðherrann Mikael Damberg segir mjög mikilvægt að brugðist sé við þar sem staðan í heiminum sé mjög óörugg. Nýjar reglur gilda frá laugardeginum og til loka marsmánaðar hið minnsta, að því er fram kemur í frétt SVT.

Nýjar reglur voru kynntar á blaðamannafundi um hádegisbil í dag. Niðurstaðan úr sýnatöku má ekki vera eldri en tveggja sólarhringa þegar henni er framvísað á landamærunum.

Einstaklingar yngri en átján þurfa ekki að framvísa neikvæðu sýni. Sömu sögu er að segja af fólki sem starfar innan flutningageirans.

Sænsk yfirvöld hafa að undanförnu vaktað ferðir fólks á landamærunum að Noregi og Danmörku. Ríkislögreglustjórinn Anders Thorberg segir nú einnig nauðsynlegt að vakta landamærin að Finnlandi og að þörf sé á frekari mannskap.

Sænsk stjórnvöld lokuðu komur fólks frá Noregi í lok janúar af ótta við útbreiðslu stökkbreyttra afbrigða kórónuveirunnnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×