Erlent

Herinn fer enn á ný með völdin í Mjanmar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Min Aung Hlaing sést hér til hægri. Hann hefur nú tekið völdin í Mjanmar og sett Aung San Suu Kyi, til vinstri, í stofufangelsi.
Min Aung Hlaing sést hér til hægri. Hann hefur nú tekið völdin í Mjanmar og sett Aung San Suu Kyi, til vinstri, í stofufangelsi. AP/Aung Shine Oo

Mjanmarski herinn tók völdin í landinu í nótt og setti leiðtoga ríkisins í stofufangelsi.

Síðustu áratugir hafa verið stormasamir í Mjanmar. Herinn tók völdin árið 1962 en það fór þó að fjara undan völdum hans undir lok níunda áratugsins. Aung San Suu Kyi leiddi þá mótmæli og uppskar fyrir það stofufangelsi fram til 2010.

Velgengni í kosningum

Þrýstingur og viðskiptaþvinganir fylgdu og heimilaði herforingjastjórnin kosningar um hluta þingsæta árið 2012 þar sem NLD-flokkur Suu Kyi vann stórsigur en USDP, leppflokkur hersins, galt afhroð.

Árið 2015 var svo kosið um öll þingsæti, utan þess fjórðungs sem herinn heldur fyrir sig, og vann NLD stórsigur. Suu Kyi tók við völdum í kjölfarið. Valdatíð hennar hefur einkennst af ofsóknum í garð þjóðflokks Róhingja í Rakhine-héraði. Suu Kyi hefur komið herforingjum til varnar, en þeir hafa verið sakaðir um þjóðarmorð.

Undir lok síðasta árs vann NLD svo enn einn stórsigurinn í þingkosningum, sem leiðtogar hersins segja að hafa farið fram með sviksamlegum hætti.

Segjast ætla að stýra í eitt ár

Það var einkum vegna þessa meinta svindls sem herinn tók völdin í landinu í nótt en í vikunni stóð til að þingið myndi staðfesta niðurstöður kosninganna. Suu Kyi var sett í stofufangelsi líkt og aðrir ráðamenn og bað stuðningsmenn um að gefast ekki upp.

Min Aung Hlaing, æðsti hershöfðingi Mjanmars, fer með völdin í hinni nýju herforingjastjórn sem hyggst stýra landinu næsta árið. Stuðningsmenn Suu Kyi segjast bera lítið traust til hersins.

„Hvernig eigum við að geta trúað því að herforingjastjórnin sitji bara þetta eina ár? Hvaða ástæðu höfum við til þess? Herinn hefur reglulega sagt eitthvað í gegnum tíðina sem reyndist rangt,“ sagði Kyaw Zhaw, íbúi í Yangon, við AP.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×