Enski boltinn

New­cast­le sogast nær fall­sætunum eftir tap á Villa Park

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Newcastle er hægt og rólega að sogast niður í fallbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar.
Newcastle er hægt og rólega að sogast niður í fallbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar. Alex Livesey/Getty Images

Aston Villa vann 2-0 sigur á Newcastle United í eina leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Ollie Watkins kom Aston Villa yfir á 13. mínútu leiksins, hans fyrsta mark síðan 8. nóvember þegar hann skoraði tvívegis í 3-0 sigri á Arsenal. Bertrand Traore tvöfaldaði forystu Villa á 42. mínútu eftir sendingu frá fyrirliðanum Jack Grealish og staðan því 2-0 í hálfleik.

Mörkin urðu ekki fleiri í leiknum og lauk honum því með 2-0 sigri Villa. Var þetta fjórða tap Newcastle í röð en liðið hefur nú tapað sex af síðustu átta leikjum sínum. Hinir tveir enduðu með jafntefli.

Newcastle náði síðast í stig þann 30. desember gegn Liverpool en síðasti sigur liðsins kom þann 12. desember gegn West Bromwich Albion.

Aston Villa er nú komið með 29 stig og situr í 8. sæti deildarinnar. Liðið á þó tvo leiki til góða á mörg liðin fyrir ofan sig í töflunni og gæti til að mynda farið upp fyrir Liverpool fari svo að liðið vinni báða leikina.

Newcastle er á sama tíma í 16. sæti með 19 stig, sjö stigum frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×