Íslenski boltinn

Ólafur Ingi tekinn við tveimur landsliðum

Sindri Sverrisson skrifar
Ólafur Ingi Skúlason er hættur hjá Fylki.
Ólafur Ingi Skúlason er hættur hjá Fylki. vísir/bára

Ólafur Ingi Skúlason hefur verið ráðinn nýr þjálfari U19-landsliðs karla og U15-landsliðs kvenna í fótbolta en Knattspyrnusamband Íslands staðfesti þetta í dag.

Ólafur Ingi var leikmaður og aðstoðarþjálfari karlaliðs Fylkis í Pepsi Max-deildinni á síðustu leiktíð en eins og mbl.is greindi frá í gær er hann nú hættur störfum í Árbænum til að einbeita sér að starfi sínu hjá KSÍ. Þjálfun Fylkis er því í höndum Atla Sveins Þórarinssonar og Ólafs Inga Stígssonar.

Ólafur Ingi lék á sínum tíma 36 A-landsleiki og skoraði í þeim eitt mark. Hann var meðal annars í hópnum sem fór á HM í Rússlandi 2018.

Ólafur Ingi, sem verður 38 ára í vor, á að baki langan feril sem atvinnumaður sem hófst hjá Arsenal árið 2001. Hann lék í Englandi, Svíþjóð, Danmörku, Belgíu og Tyrklandi áður en hann kom heim til Fylkis á HM-árinu 2018.

KSÍ mun vera að ganga frá ráðningu Davíðs Snorra Jónassonar, sem stýrði U19-landslið karla á undan Ólafi, í stöðu þjálfara U21-landsliðsins. Arnar Þór Viðarsson, sem stýrði U21-landsliðinu áfram úr undankeppni EM, var ráðinn þjálfari A-landsliðsins rétt fyrir jól.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×