Burnl­ey batt enda á ó­trú­legt gengi Liver­pool á heima­velli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ashley Barnes var hetja Burnley í kvöld.
Ashley Barnes var hetja Burnley í kvöld. Jon Super/Getty Images

Burnley vann Englandsmeistara Liverpool 1-0 í kvöld er liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni. Þar með varð Burnley fyrsta liðið til að leggja Liverpool af velli á Anfield síðan 23. apríl árið 2017. Jóhann Berg Guðmundsson spilaði síðustu 25 mínútur leiksins.

Alls hafði liðið leiki 76 leiki án taps á heimavelli fyrir leik kvöldsins. Nú hefur það ekki unnið í síðustu fimm leikjum sínum í deildinni og ekki skorað í síðustu fjórum. 

Liverpool hefur gengið skelfilega það sem af er ári en var búist við því að Englandsmeistararnir myndu sýna klærnar í kvöld en allt kom fyrir ekki. Leikurinn var einkar hægur og í raun leiðinlegur frá upphafi til enda.

Burnley lá til baka of freistaði þess að sækja hratt. Leikplan þeirra virkaði en eina alvöru færi Liverpool í fyrri hálfleik kom þegar Divock Origi slapp í gegn eftir skelfilega sendingu Ben Mee til baka á markvörð sinn, Nick Pope.

Origi skaut í samskeytin og Pope greip í kjölfarið boltann. Staðan því markalaus í hálfleik.

Síðari hálfleikur var litlu skárri og var ekkert sem benti til þess að Liverpool myndi skora sitt fyrsta mark síðan það gerði 1-1 jafntefli gegn West Bromwich Albion þann 27. desember.

Það var svo á 83. mínútu sem Ashley Barnes fékk vítaspyrnu eftir að Alisson, markvörður Liverpool, tók hann niður innan vítateigs. Ekki var snertingin mikil en Mike Dean dómari benti á punktinn og myndbandsdómgæslan staðfesti dóm hans.

Barnes fór sjálfur á punktinn og þrumaði knettinum í netið. Hans 100. mark á ferlinum staðreynd og Burnley komið 1-0 yfir. Englandsmeistararnir sóttu og sóttu það sem eftir lifði leiks en þeim tókst ekki að finna glufur á þéttum varnarmúr gestanna og fyrsta tap Liverpool í tæp fjögur ár niðurstaðan.

Liverpool er nú í 4. sæti með 34 stig, sex stigum minna en topplið Manchester United þegar enska úrvalsdeildin er hálfnið. Burnley er í 16. sæti með 19 stig.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.