Innlent

Heilbrigðisráðherra standi ekki einn í rokinu

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar og formaður velferðarnefndar Alþingis.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar og formaður velferðarnefndar Alþingis. vísir/Vilhelm

Vonir standa til að hægt verði að afgreiða sóttvarnalög úr velferðarnefnd í næstu viku. Formaður nefndarinnar segir ekki liggja eins mikið á flýtiafgreiðslu þar sem stjórnvöld telji lagagrundvöll fyrir því að skylda fólk í tvöfalda skimun á landamærunum. 

Frumvarp til breytinga á sóttvarnalögum hefur verið til umfjöllunar í velferðarnefnd í tæpa tvo mánuði. Um þessar mundir er verið að kalla gesti fyrir nefndina og á nefndarfundi í morgun fóru lögfræðingar hjá heilbrigðisráðuneytinu yfir málið.

Samfylkingin óskaði eftir því í síðustu viku að þing kæmi saman til þess að afgreiða breytingar á sótt­varna­lögum sem myndu skjóta laga­stoðum undir skyldubundna tvöfalda skimun á landamærunum, sem sóttvarnalæknir og yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli höfðu kallað eftir.

Síðar birti heilbrigðisráðherra hins vegar reglugerð sem skyldar alla sem hingað koma í tvöfalda skimun og segir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar og formaður velferðarnefndar, ekki liggja eins mikið á málinu nú þegar ríkisstjórnin telur lagagrundvöll fyrir aðgerðunum.

„Þá getum við unnið faglega að þessu. Það eru grundvallaratriði sem þarf að skoða og við þurfum að gera það með vönduðum hætti,“ segir Helga Vala og nefnir sem dæmi að fleiri en heilbrigðisráðherra eigi ef til vill að koma að stórum íþyngjandi aðgerðum líkt og ákvörðunum um útgöngubann eða lokun fyrirtækja.

„Hvort það eigi til dæmis að vera fleiri en einn ráðherra, eða hvort bera eigi ákvarðanir undir Alþingi,“ segir hún. „Þannig að hin lýðræðislega samkoma veiti ráðherra stuðning og að heilbrigðisráðherra standi þá ekki einn í rokinu. Þetta eru aðgerðir sem er verið að grípa til úti í heimi.“ 

Hún telur þetta fyrirkomulag ekki til þess fallið að hægja á ferlinu þar sem þingið sé fært um að afgreiða lög á einum degi.

Aðspurð hvenær til stendur að afgreiða sóttvarnalög úr velferðarnefnd segist Helga Vala binda vonir við að það verði í þessum mánuði. „Ég vonast til þess en veit þó ekki hvort það verði,“ segir hún og bendir á að fleiri gestir eigi enn eftir að koma fyrir nefndina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×