Erlent

Kalla eftir því að Naval­ní verði sleppt úr haldi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, og Bernie Sanders, fyrrverandi forsetaframbjóðandi, eru meðal þeirra sem hafa fordæmt handtökuna á rússneska stjórnarandstæðingnum Alexei Navalní.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, og Bernie Sanders, fyrrverandi forsetaframbjóðandi, eru meðal þeirra sem hafa fordæmt handtökuna á rússneska stjórnarandstæðingnum Alexei Navalní. Vísir/Getty

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segir sér brugðið vegna handtöku stjórnarandstæðingsins Alexei Navalní við komuna til Rússlands í dag. Hann hvetur rússnesk yfirvöld til að láta Navalní lausan án tafar. Þetta skrifar Guðlaugur á Twitter.

Fréttir um handtöku Navalní bárust á sjöunda tímanum í kvöld en Navalní hafði ákveðið að snúa aftur heim til Rússlands frá Þýskalandi, þar sem hann hafði haldið til frá því í ágúst eftir að fyrir honum var eitrað. Rússnesk yfirvöld halda því fram að hann hafi brotið skilorð með því að fara til Þýskalands en hann hefur verið sakaður um fjársvik.

Guðlaugur skrifaði einnig að rússnesk yfirvöld verði að útskýra hvað hafi átt sér stað þegar eitrað var fyrir Navalní með taugaeitrinu Novichok, eitur sem á rætur sínar að rekja til Sovét-tímans.

Bernie Sanders hefur einnig lýst yfir vonbrigðum sínum vegna handtökunnar á Twitter. Hann segir að eftir að Navalní hafi lifað af eitrunina hafi hann verið handtekinn við komuna til Rússlands í dag og kallar eftir því að honum verði sleppt lausum.

„Bandaríkin verða að standa með þeim sem berjast gegn spillingu og vinna í þágu lýðræðis um heim allan,“ skrifar Sanders.

Þá kallar Charles Michel, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins og fyrrverandi forsætisráðherra Belgíu, eftir því að Navalní verði sleppt.

„Það að Navalní hafi verið handtekinn við komuna til Moskvu er óásættanlegt. Ég kalla eftir því að rússnesk yfirvöld leysi hann úr haldi tafarlaust,“ skrifar hann á Twitter.

Svetlana Tikhanovskaya, sem bauð sig fram til forseta í Hvíta-Rússlandi í haust, tekur í sömu strengi. Hún segir Hvít-Rússa þekkja það vel hverjar afleiðingar þess að stjórnarandstæðingar séu ofsóttir séu.

„Þetta kemur sér hvorki vel fyrir Rússa né landið allt,“ skrifar hún á Twitter.

Þá skrifar Ben Rhodes, sem starfaði sem ráðgjafi Baracks Obama í forsetatíð hans, að Navalní sé táknmynd samviskunnar sem alla einræðisherra vanti. Það sé ástæðan fyrir því að þeir hræðist hann svo.

Jake Sullivan, sem hefur verið tilnefndur sem þjóðaröryggisráðgjafi Joe Bidens verðandi Bandaríkjaforseta, kallar eftir því að Navalní verði sleppt þegar í stað. Árásir rússneskra stjórnvalda á hann séu ekki aðeins mannréttindabrot heldur árás á rússnesku þjóðina sem vilji að stjórnvöld hlusti á sig.

Utanríkisráðherra Póllands, Zbigniew Rau, hefur einnig fordæmt handtökuna og hvetur Navalní til þess að gefast ekki upp.


Tengdar fréttir

Navalní handtekinn við komuna til Rússlands

Alexei Navalní hefur verið handtekinn en hann sneri aftur til Rússlands í dag í fyrsta skipti eftir að eitrað var fyrir honum með taugaeitrinu Novichok.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×