Erlent

Evrópu­ríki lýsa yfir ó­á­nægju með breytingar Pfizer

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Bóluefni Pfizer á leið til Evrópulanda.
Bóluefni Pfizer á leið til Evrópulanda. Pfizer

Nokkur Evrópuríki hafa lýst yfir óánægju vegna fyrirhugaðra breytinga á afhendingaráætlun Pfizer. Færri skammtar af bóluefni lyfjaframleiðandans munu berast til Evrópu frá og með næstu viku vegna þess að Bandaríkjadeild framleiðandans ætlar að hægja á flutningi efnisins til Evrópu.

Yfirvöld í Svíþjóð, Danmörku, Finnland, Litháen, Lettlandi og Eistlandi hafa lýst yfir óánægju sinni. Þau segja seinkunina „óásættanlega“ og vöruðu við því að breytingarnar muni draga úr trúverðugleika bóluefnaferlisins. Þá hafa þau hvatt Evrópusambandið til þess að beita Pfizer og BioNTech þrýstingi til þess að fá fleiri skammta flutta til Evrópu.

Pfizer hefur sagt að þetta ástand sé tímabundið. Færri skammtar af efninu muni berast til Evrópu vegna breytinga á framleiðslu. Verið sé að breyta framleiðslutækjum svo hægt sé að framleiða meira bóluefni hraðar.

Pfizer sagði í yfirlýsingu að þrátt fyrir að færri skammtar berist til Evrópu það sem eftir er af janúar og í byrjun febrúar verði framleiðsla orðin hraðari um miðjan febrúar og megi þá búast við fleiri skömmtum en ætlað hefur verið í síðari hluta febrúar og mars.

Heilbrigðisráðuneyti Þýskalands sagði tilkynningu Pfizer koma á óvart. Það minnti framleiðandann á að hann hafi skuldbundið sig til að flytja bóluefni til Evrópu á ákveðnum tíma og við það ætti að standa.

Ursula von der Leyen, foresti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði í dag að hún hafi rætt við forstjóra Pfizer sem hefði staðfest að allar pantanir, sem lofað hafi verið að yrðu afhentar á fyrsta ársfjórðungi, myndu verða afhentar á þeim tíma.


Tengdar fréttir

Pfizer fækkar skömmtum til Evrópu næstu vikur

Færri skammtar af bóluefni lyfjaframleiðandans Pfizer munu berast til Evrópu frá og með næstu viku en áætlað var. Um tímabundna breytingu á afhendingaráætlun er að ræða, að því er fram kemur á vef Lýðheilsustofnunar Noregs. Þar segir einnig að breytingin hafi áhrif á öll lönd í Evrópu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.