Erlent

Mesti sam­dráttur í losun í Banda­ríkjunum frá lokum seinna stríðs

Atli Ísleifsson skrifar
Samdrátturinn í losun var mestur í samgöngugeiranum, þar sem hann nam um 15 prósentum milli ára.
Samdrátturinn í losun var mestur í samgöngugeiranum, þar sem hann nam um 15 prósentum milli ára. Getty

Losun á gróðurhúsalofttegundum í Bandaríkjunum fór á síðasta ári í fyrsta skipti á síðustu þremur áratugum niður fyrir það magn sem var árið 1990. Loftslagsrannsóknafyrirtækið Rhodium áætlar að samdrátturinn hafi numið um 10 prósent milli ára og þannig verið sá mesti frá lokum seinna stríðs.

Samdrátturinn er rakinn til heimsfaraldurs kórónuveirunnar sem hefur, líkt og alls staðar, haft gríðarleg áhrif á bandarískt samfélag. Hægt hefur á öllu efnahagslífi, framleiðslu, ferðalögum, auk þess að stór hluti fólks á vinnumarkaði þurft að vinna að heiman.

New York Times segir að samdrátturinn í losun hafi verið mestur í samgöngum, þar sem hann nam um 15 prósentum, en geirinn er enn mjög háður notkun á jarðefnaeldneyti. Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa þannig mörg á árinu ráðlagt fólki gegn ferðum sem ekki teljast nauðsynlegar og þá hefur flugumferð dregist mikið saman. Þá dróst losun í orkugeiranum einnig mikið saman, sér í lagi vegna samdráttar í notkun kola sem orkugjafa.

Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur náð mikilli útbreiðslu í Bandaríkjunum þar sem rúmlega 23 milljónir manna hafa nú smitast, auk þess að um 350 þúsund dauðsföll hafi verið rakin til Covid-19.

Sérfræðingar hafa varað við að samdrátturinn í Bandaríkjunum nú skýrist af óvenjulegum aðstæðum, það er heimsfaraldrinum, og að landið eigi langt í land til að ná tökum á gríðarmikilli losun sinni sem stuðlar að loftslagsbreytingum.


Tengdar fréttir

Faraldurinn stöðvar ekki loftslagsbreytingar

Losun gróðurhúsalofttegunda stefnir í sama horf og áður en kórónuveiruheimsfaraldurinn hóf innreið sína fyrr á þessu ári þrátt fyrir metsamdrátt.

Stefnir í að losun Bandaríkjanna aukist vegna stefnu Trump

Afnám reglna sem var ætlað að vinna gegn loftslagsbreytingum í tíð Donalds Trump Bandaríkjaforseta gæti leitt til þess að losun gróðurhúsalofttegunda í Bandaríkjunum verði hátt í tveimur milljörðum tonna meiri en ella fram til 2035.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.