Innlent

Mikilvægt að fá skýringar á andlátum fyrir næsta skammt af bóluefni

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Vísir/vilhelm

Fjögur andlát hafa verið tilkynnt til Lyfjastofnunar vegna mögulegra tengsla við bólusetningu við Covid-19. Sóttvarnalæknir segir mikilvægt að fá betri mynd af því hvort andlátin megi rekja til bólusetningar áður en seinni skammtur efnisins verður gefinn.

Lyfjastofnun Íslands hefur nú borist 31 tilkynning um aukaverkun eftir bólusetningu með Covid-19 bóluefni Pfizer. Samkvæmt upplýsingum frá Lyfjastofnun teljast fimm þeirra alvarlegar og þar af eru tilkynningar um fjögur andlát. 

Alvarlegu tilkynningarnar fimm varða allar aldraða einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma og langvinn veikindi. Ekki liggja fyrir augljós tengsl milli þessara aukaverkana og bólusetningar vegna undirliggjandi sjúkdóma viðkomandi einstaklinga að sögn Lyfjastofnunar.

Allar alvarlegar tilkynningar um aukaverkanir varða aldraða einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma.vísir/vilhelm

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að hvert andlát þurfi að skoða mjög vel með opnum huga.

„Við erum að hefja þá vinnu og við þurfum að gera það í samvinnu við öldrunarlækna. Ég er líka búinn að senda fyrirspurn út til kollega mína á Norðurlöndunum, hvort að þar hafi sést eitthvað viðlíka. Þeir hafa ekki séð neitt slíkt þannig að við þurfum bara að skoða þetta betur,“ segir Þórólfur.

Hann segist ekki vita til þess að sambærilegar tilkynningar hafi verið að berast í löndunum í kringum okkur.

„Þegar maður skoðar hverjir hafa verið rannsakaðir í þessum bólusetningum, þá hafa eldri einstaklingar verið bólusettir en ekki einstaklingar með kannski mikið af undirliggjandi sjúkdómum og svo framvegis. Þannig kannski erum við að sjá eitthvað nýtt í þessu sem ekki hefur sést áður en þetta þarf bara að skoða.“

Tíu til tuttugu vikuleg andlát á hjúkrunarheimilum

Hann bendir þó á að hér sé um að ræða viðkvæmasta fólk samfélagsins og er dánartíðni í hópnum há samkvæmt því.

„Við þurfum náttúrulega að hafa það í huga að það deyja um tíu til tuttugu einstaklingar á hjúkrunarheimilum í hverri viku. Það er breytilegt en við þurfum að skoða þetta í ljósi þess og erum að fá tölur um hvort núna sé aukning á dauðsföllum í kjölfar þessarar bólusetningar.“

Þrjár vikur eiga að líða á milli fyrri og seinni bólusetningar af bóluefni Pfizer. Um vika er síðan  fyrri skammtur var gefinn og Þórólfur segir mikilvægt að fá betri mynd af málinu áður en sá seinni verður gefinn.

„Við þurfum að hafa mynd af því og þá ákvörðun í samræmi við það hvort við eigum að gefa öldruðum seinni skammtinn eða hvort við eigum að beita einhverri annarri nálgun. Ég held að við verðum að gera það,“ segir Þórólfur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×