Erlent

Leið­togi Proud Boys hand­tekinn fyrir að kveikja í Black Lives Matter fána

Atli Ísleifsson skrifar
Enrique Tarrio var handtekinn í gær vegna ásakana um að hafa kveikt í Black Lives Matter fána á baráttufundi Proud Boys í Washington DC þann 12. desember.
Enrique Tarrio var handtekinn í gær vegna ásakana um að hafa kveikt í Black Lives Matter fána á baráttufundi Proud Boys í Washington DC þann 12. desember. EPA

Lögregla í bandarísku höfuðborginni Washington DC handtók í gær leiðtoga hægriöfgahópsins Proud Boys fyrir að hafa borið eld að Black Lives Matter fána í síðasta mánuði.

Lögregla segir að Enrique Tarrio eigi yfir höfði sér refsingu fyrir skemmdarverk á eigum annarra, en hann er grunaður um að hafa kveikt í fána sem hann tók ófrjálsri hendi frá kirkju, þar sem meirihluti gesta eru svartir, á baráttufundi Proud Boys í desember.

Proud Boys er hreyfing öfgahægrimanna sem yfirvöld hafa margsinnis bendlað við ofbeldi í tengslum við mótmæli í Bandaríkjunum á undanförnum misserum.

Donald Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseti, hefur hvatt stuðningsmenn sína til að safnast saman í höfuðborginni Washington í vikunni til að mótmæla. Bandaríkjaþing munu á morgun staðfesta kjör Demókratans Joes Biden sem næsti forseti Bandaríkjanna, en Biden mun svo taka við embættinu þann 20. janúar.

Tarrio hefur sagt á samfélagsmiðlum að metfjöldi liðsmanna Proud Boys muni mæta til að mótmæla á morgun.

BBC greinir frá því að talsmaður lögreglunnar í Washington hafi sagt að hinn 36 ára Tarrio, sem býr í Miami í Flórida, hafi verið handtekinn í gær þegar hann ók inn í höfuðborgina. Í bíl hans hafi svo einnig fundist ólöglegur vopnabúnaður.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×