Erlent

Útgöngubann á Englandi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. Heathcliff O'Malley - WPA Pool/Getty

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti í kvöld um útgöngubann vegna kórónuveirufaraldursins í Englandi. Í ávarpi sem hann flutti í kvöld sagði hann útbreiðslu nýs afbrigðis veirunnar, sem herjað hefur á Bretlandseyjar og er talið 50 til 70 prósent meira smitandi en flest önnur afbrigði, vera áhyggjuefni.

Sagði Johnson að sökum mikillar uppsveiflu faraldursins í Englandi væri ljóst að grípa þyrfti til harðari aðgerða en hafa verið í gildi að undanförnu. Fólki verði að miklu leyti gert að halda sig heima, nema brýn nauðsyn kalli á annað. Undir það falla meðal annars ferðir til að versla matvörur og lyf. Útgöngubannið tekur gildi á miðnætti. Sagði Johnson að hægt yrði af aflétta því um miðjan febrúar næstkomandi, ef vel gengi að koma böndum á faraldurinn.

Þá verður fólki sem hefur kost á að vinna heima gert að gera það. Skólum á grunnskólastigi, fyrir fimm til 16 ára nemendur, verður þá gert að færa kennslufyrirkomulag sitt yfir á rafrænt form. Forsætisráðherrann sagði jafnframt að sökum þessa væri „ekki sanngjarnt“ að nemendur á því skólastigi yrðu látnir þreyta próf í vor.

Fyrr í dag var tilkynnt um sambærilegt útgöngubann í Skotlandi.

Skólar geti verið „miðstöð fyrir smitbera“

Johnson sagðist í ávarpi sínu skilja vel þau „óþægindi og stress“ sem lokanir skóla muni hafa í för með sér, bæði fyrir nemendur og foreldra. Ríkisstjórnin hefði gert allt sem í hennar valdi stóð til þess að halda skólum opnum.

„Vandamálið er ekki að skólar séu ekki öruggir staðir fyrir börnin,“ sagði Johnson og bætti við að enn væri ekki talin mikil hætta á að börn veiktust alvarlega af Covid-19. Hann sagði hins vegar að skólar, ef þeim væri haldið opnum í núverandi ástandi, gætu orðið „miðstöðvar fyrir smitbera“ og gætu valdið því að kórónuveirusmit dreifðust inn á mörg heimili.

Johnson bætti því við að ef ekkert yrði að gert gæti heilbrigðiskerfið í Bretlandi hreinlega hrunið innan næstu þriggja vikna. Bretar fóru einnig í útgöngubann vegna útbreiðslu veirunnar í vor. Johnson sagði reginmun á stöðunni þá og nú.

„Bretland er nú í stærsta bólusetningarátaki í sögu landsins,“ sagði Johnson og bætti við að Bretland hefði bólusett fleiri en önnur Evrópulönd samanlagt. 

Hér að neðan má sjá ávarp Johnsons frá því í kvöld.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.