Enski boltinn

Lampard með versta árangur stjóra Chelsea síðan Abramovich eignaðist félagið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Frank Lampard hefur um nóg að hugsa þessa dagana.
Frank Lampard hefur um nóg að hugsa þessa dagana. getty/Andy Rain

Frá því Roman Abramovich eignaðist Chelsea sumarið 2003 hefur enginn knattspyrnustjóri liðsins verið með færri stig að meðaltali í leik en Frank Lampard.

Chelsea tapaði 1-3 fyrir Manchester City í gær og hefur aðeins unnið einn af síðustu sex leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni. Chelsea er í 8. sæti en dettur niður í það níunda ef Southampton vinnur Liverpool í kvöld.

Eftir rýra uppskeru í síðustu leikjum hefur pressan á Lampard aukist enda hefur Abramovich ekki verið feiminn við að reka stjóra síðan hann keypti Chelsea fyrir bráðum átján árum. Og stjóra sem voru með mun betri árangur og flottari ferilskrá en Lampard.

Síðan Lampard tók við Chelsea sumarið 2019 hefur liðið náð í 1,67 stig að meðaltali í leik. Það er lægsti stigafjöldi hjá stjóra Chelsea frá því Abramovich eignaðist félagið.

André Villas-Boas er með næstversta árangurinn, eða 1,70 stig að meðaltali í leik. Þar á undan koma Claudio Ranieri með 1,82 stig og Roberto Di Matteo með 1,83 stig. Sá síðastnefndi gerði Chelsea að Evrópu- og bikarmeisturum 2012.

Avram Grant er með besta árangurinn, eða 2,31 stig að meðaltali í leik. Sá árangur var þó ekki nógu góður til að halda honum í starfi. Grant stýrði Chelsea stærstan hluta tímabilsins 2007-08. Liðið endaði þá í 2. sæti í ensku úrvalsdeildinni, Meistaradeild Evrópu og deildabikarnum.

Næsti leikur Chelsea er gegn Morecambe í 3. umferð ensku bikarkeppninnar á sunnudaginn. Chelsea mætir Fulham í næsta deildarleik sínum 15. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×