Enski boltinn

Mourinho ósáttur við að leikjum sé frestað vegna Covid

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Mourinho á hliðarlínunni í dag.
Mourinho á hliðarlínunni í dag. vísir/Getty

Jose Mourinho, stjóri Tottenham, er ósáttur við ákvarðanir ensku úrvalsdeildarinnar að undanförnu en þremur leikjum hefur verið frestað á innan við viku vegna Covid smita.

Í dag var leik Fulham og Burnley, sem fyrirhugaður var á morgun, frestað vegna þess að smit kom upp í leikmannahópi Fulham en leikur Tottenham og Fulham fór ekki fram þann 30.desember vegna gruns um smit í leikmannahópi Fulham.

Áður hafði leik Everton og Man City verið frestað með skömmum fyrirvara.

Mourinho ræddi frestanirnar eftir 3-0 sigur Tottenham á Leeds United í ensku úrvalsdeildinni í dag.

„Ég bendi aftur á upphaflegu reglurnar sem segja að það sé nóg að hafa 14 leikmenn leikhæfa til að spila. Ég sé enga ástæðu til að spila ekki,“ segir Mourinho.

Þarna vísar Mourinho til þess að áður en leiktímabilið hófst var búin til regla þess efnis að leikir færu fram þó upp kæmu smit tengd liðum ensku úrvalsdeildarinnar, svo lengi sem lið hefði 14 leikhæfa leikmenn á sínum snærum.

„Ég held að öll félög séu að gera sitt besta fyrir leikmennina til að tryggja öryggi þeirra en svo eru atvik sem koma upp í þeirra einkalífi sem félögin geta ekki stjórnað,“ sagði Mourinho.

„Við verðum að halda áfram, jafnvel þó einhverjir séu smitaðir í leikmannahópnum.“

Þrír leikmanna Mourinho brutu reglur um samkomutakmarkanir yfir hátíðarnar og tók Mourinho undir yfirlýsingu Tottenham og kvaðst vera mjög vonsvikinn með þá Giovani Lo Celso, Sergio Reguilon og Erik Lamela.


Tengdar fréttir

Frestað hjá Fulham og Burnley

Leik Fulham og Burnley í ensku úrvalsdeildinni, sem átti að fara fram á morgun, hefur verið frestað vegna kórónuveirusmita í herbúðum Fulham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×