Erlent

Bóluefni Moderna verði samþykkt í Evrópu á mánudaginn

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Bólusetning gegn covid-19 með bóluefni Moderna er þegar hafin í Bandaríkjunum.
Bólusetning gegn covid-19 með bóluefni Moderna er þegar hafin í Bandaríkjunum. EPA/Gary Coronad

Richard Bergström, bóluefnastjóri Svíþjóðar, segir að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins muni veita samþykki fyrir bóluefni Moderna gegn covid-19 á mánudaginn og að fyrstu skammtarnir verði komnir til Svíþjóðar innan tveggja vikna að því er SVT greinir frá. Ísland hefur gert samning um kaup á 128 þúsund skömmtum af bóluefni frá Moderna, í gegnum Svíþjóð, en það ætti að duga til að bólusetja 64 þúsund manns á Íslandi.

Ferlið hefur gengið hraðar fyrir sig en búist var við en sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu hafði þegar flýtt mati á bóluefninu frá 12. janúar, líkt og upphaflega var stefnt að, til 6. janúar. Nú virðist því sem samþykki muni liggja fyrir tveimur dögum fyrr, eða mánudaginn 4. janúar.

„Það er engin ástæða til að bíða,“ er haft eftir Bergström í frétt SVT. „Matið fer fram á mánudagsmorgun og nokkrum tímum síðar verður það formlega samþykkt af framkvæmdastjórn ESB.“

Svíar eiga von á að fá á milli 20 og 30 þúsund skammta á viku að Sögn Bergström en líkt og áður segir mun Ísland fá sína skammta af bóluefni Moderna í gegnum samstarf við Svíþjóð. Þegar markaðsleyfi ESB liggur fyrir muni Lyfjastofnun Íslands vinna að kappi að því að gefa út íslenskt markaðsleyfi á sem allra skemmstum tíma. Vonir eru bundnar til að sú vinna taki aðeins fáeina daga.

Stjórnendur þýska lyfjafyrirtækisins BioNTech hafa gagnrýnt Evrópusambandið fyrir seinagang í pöntunum á bóluefni fyrirtækisins og Pfizer. Fyrirtækin leggi nú leggja kapp á að auka framleiðsluna til að brúa bilið, sem seinagangur og of mikið traust ESB til annarra framleiðenda, hafi búið skapað.

Bergström segir aftur á móti að engin hætta sé á skorti af bóluefni. „Nei, nei, nei. Því er frekar öfugt farið,“ segir Bergström. Það virðist fyrir honum frekar sem um óþolinmæði framkvæmdastjóra BioNTech sé að ræða, en fyrirtækið bíður nú eftir því að framleiðsla bóluefnisins geti hafist í verksmiðju í Marburg þar sem bóluefni Pfizer/BioNTech verður framleitt.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.