Innlent

Vísbendingar um að fólk hafi verið að gleyma sér

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum.
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum. Lögreglan

Yfirlögregluþjónn segir annríki hjá lögreglu og á bráðamóttöku í nótt áhyggjuefni þegar kemur að útbreiðslu kórónuveirunnar. Það gefi vísbendingu um að fólk hafi aðeins verið að gleyma sér sem gæti skilað sér í að fleiri smitist af veirunni.

Um tíu manns leituð á bráðamóttöku Landspítalans í nótt eftir að hafa slasað sig á flugeldum. Fimm þeirra voru börn en það yngsta var tveggja ára. Nokkuð álag var á bráðamóttöku Landspítalans í nótt. Frá því klukkan átta í gærkvöldi og þar til klukkan átta í morgun leituðu þangað ríflega sextíu manns.

„Margir sem þurftu að leita til okkar vegna áverka og veikinda í tengslum við skemmtanahald. Við fengum nokkra sem voru með alvarlegri brunaáverka,“ segir Jón Magnús Kristjánsson yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi.

Jón Magnús Kristjánsson yfirlæknir bráðalækninga á Landspítala.Vísir/Egill

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í nótt. Talsvert var um ölvunarakstur, hávaðakvartanir og tilkynning barst um hópamyndun á Skólavörðuholtinu. 

Rögnvaldur Ólafsson yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum segir að þetta ásamt álagi á bráðamóttökunni vera áhyggjuefni varðandi útbreiðslu kórónuveirunnar. Aðeins þrír greindust með veiruna í gær samkvæmt bráðabirgðatölum.

„Það eitt og sér eru náttúrulega vísbendingar um það að fólk hafi aðeins verið að gleyma sér og það hafi verið að fara af stað í einhverja svona hópamyndun sem að við erum búin að hvetja fólk til að geyma. Það náttúrulega gæti skilað okkur í fleiri smitum þannig að við myndum þá sjá það væntanlega í kringum miðjan janúar býst ég við,“ segir Rögnvaldur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×