Innlent

Hópa­myndun við Hall­gríms­kirkju í nótt tilkynnt til lögreglu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Það var margt um manninn.
Það var margt um manninn. Vísir/Egill

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um hópamyndun við Hallgrímskirkju á Skólavörðuholti í Reykjavík um klukkan eitt í nótt. 

Á þeim tíma sem tilkynningin barst voru miklar annir hjá lögreglufólki og því gafst ekki tími til að hafa afskipti af mannfjöldanum. Seinna um nóttina þegar lögregla kannaði ástandið á svæðinu hafði dregið verulega úr fjölda fólks.

Þetta staðfestir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við fréttastofu.

Lögregla fór á staðinn og slökkti í litlu báli sem kviknað hafði í leifum af sprunginni flugeldatertu. Hins vegar var gamlárskvöldið annasamt hjá lögreglu og ástandið metið þannig að ekki væri unnt að hafa afskipti af fólki að svo stöddu.

„Á þeim tímapunkti var ákveðið að hafa ekki afskipti þar sem það var mikið að gera. Svo var farið þarna aftur skömmu síðar og þá voru flestir farnir,“ segir Ásgeir og bætir við að hann viti ekki af fleiri tilkynningum á borði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um hópamyndun.

Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.Vísir/Vilhelm

Myndir sýna talsverðan fjölda fólks við kirkjuna

Myndir sem tökumaður fréttastofu tók við Skólavörðuholtið í kring um miðnætti í gærkvöldi sýna mikinn fjölda fólks við Hallgrímskirkju. Myndirnar voru teknar í kring um miðnætti.

Eins og áður sagði barst lögreglu tilkynning um hópamyndun við kirkjuna í kring um klukkan eitt í nótt.

„Þetta er nú kannski sá staður sem fólk úr þessu hverfi kemur á, þetta er svona eina bersvæðið, þannig þetta var nú kannski dálítið fyrirséð. Maður vonar bara að fólk hafi náð að standa þarna í jólakúlunum sínum,“ segir Ásgeir.

Töluvert var um fólk á Skólavörðuholti í kring um miðnætti.Vísir/Egill


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×