Erlent

Grikkir hættir að taka á móti hælisumsóknum

Samúel Karl Ólason skrifar
Flóttamenn standa við landamæri Grikklands. Komið hefur til átaka við landamærin og mun einn flóttamaður hafa verið skotinn til bana.
Flóttamenn standa við landamæri Grikklands. Komið hefur til átaka við landamærin og mun einn flóttamaður hafa verið skotinn til bana. AP/Giannis Papanikos

Yfirvöld Grikklands hafa lokað á frekari hælisumsóknir eftir að Tyrkir byrjuðu að hleypa flóttafólki til Grikklands. Fregnir hafa borist af því að landamæraverðir í Grikklandi hafi skotið flóttamann til bana í morgun.

Um það bil 3,7 milljónir flóttafólks hafa haldið til í Tyrklandi um árabil, auk flóttafólks frá öðrum ríkjum svæðisins. Ríkisstjórn Recep Tayyip Erdogan ,forseta Tyrklands, hafði gert samkomulag við Evrópusambandið um að fólkinu yrði ekki leyft að fara lengra en til Tyrklands og staðinn fengu Tyrkir fjárstyrki frá ESB.

Nú segjast Tyrkir hins vegar ekki ráða við þennan fjölda flóttafólks og hafa opnað dyrnar að Evrópu, ef svo má að orði komast.

Yfirvöld Grikklands hafa hins vegar aukið viðbúnaðinn við landamæri ríkjanna til muna og hafa hermenn verið sendir á svæðið.

Kyriakos Mitsotakis, forsætisráðherra Grikklands, tilkynnti aðgerðirnar í gærkvöldi. Sagði hann sömuleiðis að landamæri Grikklands væru landamæri Evrópu og að þau yrðu varin. Ríkisstjórn hans hefur leitað til ESB eftir aðstoð.

ESB segir að aðstoð verði veitt til Grikklands og Búlgaríu, sem deilir einnig landamærum með Tyrklandi.

„Einu sinni enn. Ekki reyna að komast til Grikklands ólöglega. Ykkur verður vísað á brott,“ skrifaði Mitsotakis á Twtitter.

Grikkir segja að minnst tíu þúsund manns hafi verið vísað frá landamærunum á laugardaginn og 5.500 manns í gær.

Óstaðfestar fregnir herma að flóttafólki í Tyrklandi hafi verið keyrt að landamærum Grikklands í ómerktum rútum og hafa myndbandsupptökur stutt þær fregnir.

Alkiviadis Stefanis, aðstoðarvarnarmálaráðherra Grikklands, hefur sakaði yfirvöld Tyrklands um að hvetja flóttafólk til að leggja land undir fót og fara til Evrópu.

„Þeir eru ekki bara hættir að stöðva þau, heldur eru þeir að hjálpa þeim,“ sagði hann í sjónvarpsviðtali, samkvæmt BBC.

Komið hefur til átaka á milli flóttafólksins og landamæravarða. Táragasi hefur verið beitt gegn flóttafólkinu sem hefur kastað grjóti og öðrum munum að landamæravörðunum.

Mevlut Cavasoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, birti tíst á laugardaginn þar sem hann gagnrýndi Grikki harðlega.

„Sjáið þá sem veita okkur kennslustundir í um alþjóðalög!“ skrifaði hann. „Þeir kasta táragasi að þúsundum saklausra sem hafa raðað sér upp við dyr þeirra“. Hann skrifaði einnig að Tyrkir væru ekki skuldbundnir til að halda fólkinu þar í landi en Grikkjum bæri að koma fram við þau eins og manneskjur.

Fólksflutningarnir tengjast Idlib-héraði í Sýrlandi og átökunum þar. Gífurlega margir eru á flótta þar og hafa flestir þeirra leitað til Tyrklands. Neyðarástand er á svæðinu.

Sjá einnig: Hræðilegt ástand og mestu fólksflutningarnir í sögu stríðsins

Embættismenn í Tyrklandi segjast vera að búa sig undir komu margra flóttamanna til viðbótar og því hafi ákvörðunin verið tekin að opna landamærin að Grikklandi. Ábyrgðin gæti ekki einungis verið á höndum Tyrkja.

Nú í morgun bárust svo fregnir af því að grískir landamæraverðir hafi skotið mann til bana á landamærunum.


Tengdar fréttir

Átökin koma sérstaklega niður á börnum

Um milljón manna hafa flúið undan sókn stjórnarhers Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, í Idlib-héraði. Sóknin nýtur stuðnings Rússa, sem hafa verið sakaðir af mannréttindasamtökum um loftárásir á sjúkrahús og skóla.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×