Erlent

Tyrkir standa ekki lengur í vegi fyrir flótta til ESB ríkja

Andri Eysteinsson skrifar
Flóttafólk freistir þess nú að komast frá Tyrklandi til Grikklands.
Flóttafólk freistir þess nú að komast frá Tyrklandi til Grikklands. Getty/Anadolu Agency

Tyrknesk yfirvöld segjast ekki ætla lengur að standa í vegi fyrir því að hópar sýrlenskra flóttamanna flýi til landa Evrópusambandsins. Samningur milli Tyrklands og ríkja Evrópusambandsins hefur verið í gildi en tyrkir segja stuðning ESB við Tyrkland ekki nægilegan til þess að halda samningnum til streitu en BBC greinir frá.

Ákvörðunin er tekin eftir árás sýrlenskra stjórnarhermanna á tyrkneska hermenn í Idlib í norðurhluta Sýrlands en 33 tyrkir létu lífið. Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, hefur staðfest ákvörðun Tyrklands.

„Hvað gerðum við í gær? Við opnuðum dyrnar. Þeim verður ekki lokað vegna þess að ESB stendur ekki við loforð sín,“ sagði Erdogan. Al Jazeera greinir frá að hið minnsta 18.000 flóttamenn hafi þegar safnast saman við landamæri Tyrklands og Grikklands en þar hafa orðið átök milli grískra lögreglumanna og flóttafólks. Lögregla beitti táragasi á hópa mótmælanda sem brugðust sumir hverjir við með grjótkasti.

Tæplega 3,7 milljónir Sýrlendinga dvelja nú í Tyrklandi eftir flótta frá heimalandinu og er búist við því að mikill fjöldi fólks freisti þess að komast yfir til Grikklands eða Búlgaríu.

Forsætisráðherra Grikklands, Kyriakos Mitsotakis, hefur sagt mikinn fjölda flóttafólks hafa safnast saman við landamærin en sagði að engum yrði hleypt í landið með ólöglegum hætti.

Blaðakonan Jenan Moussa greindi frá því á Twitter síðu sinni í gær að flóttafólki í Istanbul væri boðið upp á rútuferðir að landamærunum. Grikkir standi þó enn í vegi fyrir því að fólk fái inngöngu í landið en tyrknesk yfirvöld hefta líka endurkomu inn í Tyrkland.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.