Íslenski boltinn

Víkingar í algjörum sérflokki hvað varðar spilatíma ungra leikmanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Víkingar fagna góðum sigri á síðasta tímabili í Pepsi Max deild karla í fótbolta.
Víkingar fagna góðum sigri á síðasta tímabili í Pepsi Max deild karla í fótbolta. Vísir/Bára

Víkingur var í algjörum sérflokki í Pepsi Max deild karla í fyrrasumar þegar kemur að því að gefa ungum leikmönnum mínútur. Þetta kemur fram í uppgjöri hjá CIES Football Observatory.

CIES Football Observatory tók saman hjá öllum deildum heimsins hvað þær væru að gefa leikmönnum yngri en 22 ára mikið af tækifærum inn á vellinum. Fótbolti.net vakti athygli á þessu en lesa má um alla samantektina hér.

Pepsi Max deildin er þar í 23. sæti á listanum en leikmenn sem voru ekki búnir að halda upp á 22 ára afmælið sitt spiluðu 18,9 prósent af mínútum í boði í Pepsi Max deild karla sumarið 2019.

Næstar á undan íslensku deildinni er deildirnar í Króatíu og Makedóníu með 19,3 prósent en sú danska og finnska eru ekki langt á undan með 19,4 prósent hvor.

Næstar á eftir íslensku Pepsi Max deildinni eru deildirnar í Albaníu (18,2 prósent) og Úkraínu (18,0 prósent).

Enska úrvalsdeildin er bara í 74. sæti með 8,5 prósent en sú neðsta er deildin í Tyrklandi þar sem ungir leikmenn spiluðu aðeins 3,7 prósent mínútnanna.

Slóvakía gaf ungum leikmönnum flest tækifæri en þeir spiluðu í 29,0 prósent leiktímans í slóvakísku deildinni.

Það sem vekur samt mesta athygli er hversu langt á undan öðrum liðum bikarmeistarar Víkinga voru í fyrrasumar.

Leikmenn undir 22 ára aldri spiluðu langflestar mínútur hjá Víkingi af öllum liðunum í Pepsi Max-deildinni eða 42,9 prósent mínútna í boði. Víkingur er í 33. sæti meðal allra liðanna í heiminum.

Það eru meira en þrettán prósent niður í næsta íslenska lið því ungir leikmenn spiluðu 29,7 prósent mínútna í boði hjá Skagamönnum.

Flestar mínútur íslenskra liða í Pepsi Max deild karla 2019:

  • 42.9% Víkingur R.
  • 29,7% ÍA
  • 25,9% KA
  • 23,0% Fylkir
  • 22,5% ÍBV



Fleiri fréttir

Sjá meira


×