Enski boltinn

Berbatov þvertekur fyrir leti

Sindri Sverrisson skrifar
Dimitar Berbatov var ekki alltaf á fullri ferð en hann kunni að skora mörk.
Dimitar Berbatov var ekki alltaf á fullri ferð en hann kunni að skora mörk. vísir/getty

Dimitar Bertatov þvertekur fyrir að hafa verið latur fótboltamaður. Hann hafi ef til vill virst letilegur í leikjum með Tottenham og Manchester United en það hafi verið til að gabba varnarmenn.

Berbatov, sem skoraði 94 mörk í 229 leikjum í ensku úrvalsdeildinni, var í spjalli á útvarpsrás BBC spurður út í gagnrýni þess efnis að hann legði ekki nógu hart að sér í leikjum. Væri hreinlega latur.

„Það er mismunandi hvernig menn horfa á leikinn og spila hann. Það sem var sérstakt hjá mér var að mönnum sýndist að ég væri ekki alveg inni í leiknum en á sama tíma var ég að grandskoða völlinn til að sjá stöður þar sem ég gæti verið á réttu augnabliki. Þetta gerði ég til að ég gæti verið með smá pláss á réttum tíma, svo ég gæti fengið boltann án þess að varnarmaður væri í bakinu á mér. Þegar ég fæ svona tíma og pláss á ég auðveldara með að ákveða hvert ég vil setja boltann,“ sagði Berbatov.

„Sumt fólk skilur þetta ekki, en ef að maður er klókur í hausnum, jafnvel þó að maður sé hægfara, þá getur maður verið fljótur. Maður getur staðsett sig rétt og gert meira gagn fyrir liðið sitt,“ sagði Berbatov.

„Ef að við ættum að raða leikmönnum Tottenham-liðsins eftir því hver hlypi mest þá væru Jermaine [Jenas] og [Robbie] Keane efstir á blaði, svo restin af liðinu, og loks ég. En ég var að hlaupa í huganum. Og ef ég sá leikmann í betri stöðu þá gaf ég boltann alltaf. Engin eigingirni. Við vinnum eða töpum saman,“ sagði Berbatov, og kvaðst skilja að fólki gæti þótt leikstíll hans undarlegur.

„Þetta er kannski skrýtið en í öllum liðum sem ég hef verið í hefur það verið þannig að stuðningsmenn og leikmenn skilja kannski ekki alveg hvernig ég spila, og eru svolítið hræddir við það. Svona eins og að ég sé ekki að hjálpa nógu mikið eða sé nógu góður fyrir liðið. En þetta venst því fólk sér að þetta getur skilað góðum úrslitum,“ sagði Berbatov.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×