Innlent

Hver Íslendingur sóar að jafnaði níutíu kílóum af mat árlega

Eiður Þór Árnason skrifar
Niðurstöður benda til að heild- og smásala, veitingasala og framreiðsla matar í skólum og á heilbrigðisstofnunum, sói samtals 42,2 kílóum á hvern íbúa árlega.
Niðurstöður benda til að heild- og smásala, veitingasala og framreiðsla matar í skólum og á heilbrigðisstofnunum, sói samtals 42,2 kílóum á hvern íbúa árlega. Vísir/vilhelm

Ætla má að hver Íslendingur sói að meðaltali níutíu kílóum af mat árlega. Þetta er niðurstaða rannsóknar Umhverfisstofnunar á umfangi matarsóunar á Íslandi.

Samkvæmt niðurstöðum hennar fóru tuttugu kíló af nýtanlegum mat, 25 kíló af ónýtanlegum matarafgöngum, 40 lítrar af drykkjum og 5 kíló af matarolíu og fitu til spillis á hefðbundnu íslensku heimili í fyrra.

Níutíu heimili og áttatíu fyrirtæki tóku þátt í rannsókninni á síðasta ári. Matarsóun íslenskra heimila er samkvæmt þessu sambærileg því sem þekkist í öðrum Evrópulöndum. Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur áætlað að um þriðjungi framleiddra matvæla á heimsvísu sé sóað.

Alls 7.152 tonn af nýtanlegum mat í ruslið

Í heildina er áætlað að að íslensk heimili hendi samtals 7.152 tonnum af nýtanlegum mat á ári hverju, um 9.130 tonnum af ónýtanlegum matarafgöngum, 14.670 tonnum af drykkjum og 1.840 tonnum af matarolíu og fitu.

Sambærileg rannsókn var framkvæmd af Umhverfisstofnun árið 2016 og fannst ekki tölfræðilega marktækur munur á sóun milli tímabilanna tveggja.

Niðurstöður fyrirtækjarannsóknarinnar benda til þess að heild- og smásala, veitingasala og framreiðsla matar í skólum og á heilbrigðisstofnunum, sói samtals 42,2 kílóum á hvern íbúa árlega. Þar af eru 22 kíló af nýtanlegum mat, 3,6 kíló af ónýtanlegum mat, 14,6 lítrar af drykkjum og 1,6 kíló af olíu og fitu.

Lítið vitað um sóun matvælaframleiðslufyrirtækja

Dræm þátttaka framleiðslufyrirtækja í rannsókninni er þó sögð gera það að verkum að niðurstöðurnar endurspegla bara neysluhlekk matvælakeðjunnar og veiti ekki innsýn inn í hversu mikið af hráefni og tilbúnum mat fari til spillis við frumframleiðslu og matvælaframleiðslu.

Að sögn Umhverfisstofnunar liggja enn sem komið er ekki fyrir staðlaðar aðferðir við rannsóknir á matarsóun. Í rannsóknarskýrslunni eru þó lagðar fram tillögur að stöðluðum aðferðum við slíkar rannsóknir og þeim beint til Hagstofu Evrópusambandsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×