Erlent

Banna katta- og hundaát vegna kórónuveirunnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá hundakjötshátíð í borginni Yulin í Kína árið 2016.
Frá hundakjötshátíð í borginni Yulin í Kína árið 2016. EPA/WU HONG

Yfirvöld borgarinnar Shenzhen í Kína hafa bannað át hunda og katta. Það var gert til að sporna við sölu dýra en vísindamenn grunar að rætur nýju kórónuveirunnar megi rekja til dýramarkaðar í borginni Wuhan. Þar voru snákar, leðurblökur og önnur dýr til sölu og mun veiran hafa flust úr dýrum í menn þar, samkvæmt kenningum sem hafa ekki verið staðfestar.

Sala og neysla villtra dýra var bönnuð í Kína í febrúar.

Samkvæmt BBC áætla verndarsamtök að um 30 milljónum hunda sé slátrað til matar á ári hverju í Asíu. Langflestir Kínverjar segjast ekki hafa borðað hunda- eða kattakjöt og ætla sér ekki að gera það.

Í yfirlýsingu frá yfirvöldum Shenzhen, sem eru fyrstir til að taka bannið frá því í febrúar lengra og Reuters vitnar í, segir að hundar og kettir hafi myndað mun nánara samband við menn en önnur dýr. Það að banna át þeirra og annarra gæludýra sé algengt í þróuðum ríkjum. Það sé einnig í takt við kröfur og anda mannkyns.

Staðfest kórónuveirusmit nálgast nú milljón á heimsvísu og hafa tæplega 50 þúsund dáið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×