Íslenski boltinn

„Þetta gæti pirrað leikmenn“

Sindri Sverrisson skrifar
Aron Bjarnason var frábær fyrri hluta sumars með Breiðabliki á síðasta ári.
Aron Bjarnason var frábær fyrri hluta sumars með Breiðabliki á síðasta ári. MYND/STÖÐ 2 SPORT

Knattspyrnumaðurinn Aron Bjarnason er á leið úr atvinnumennsku í Ungverjalandi til Vals. Gestir Gumma Ben í Sportinu í kvöld segja slíkt vandmeðfarið í ljósi þess að leikmenn Vals hafi tekið á sig launalækkun vegna kórónuveirukrísunnar, en telja þó að það valdi ekki vandræðum.

Vefmiðillinn 433.is greindi frá því í dag að Aron væri á leið á Hlíðarenda en hann lék með Breiðabliki áður en hann fór til Újpest í Ungverjalandi í fyrra.

„Ef að ég væri í Val, eftir vonbrigðatímabil síðasta sumar, og jú ég þyrfti að lækka aðeins launin, þá myndi ég samt hugsa með mér að Aron Bjarnason væri að koma að hjálpa okkur. Ég væri langt því frá að vera eitthvað óánægður með þetta,“ sagði Gummi við þá Frey Alexandersson aðstoðarlandsliðsþjálfara og Hjörvar Hafliðason fjölmiðlamann.

„Þetta er vandmeðfarið, en ég held að það sé rétt hjá þér að flestir leikmenn horfi á þetta svona,“ sagði Freyr.

„Þetta er ágætis „argument“ að leikmenn séu að taka á sig niðurskurð og svo er fenginn leikmaður, en hvað er rétt að gera? Myndi þetta pirra mann? Nee, ábyggilega ekki,“ sagði Hjörvar. Freyr sagði viðbrögðin velta á stöðu þeirra leikmanna sem fyrir eru hjá Val:

„Þetta gæti pirrað leikmenn ef að það eru einhverjir í fjárhagslegum vandræðum út af ástandinu. Við vitum náttúrulega ekkert um það. En ef að menn eru að komast í gegnum þetta þokkalega þá held ég að allir fagni því að fá góðan knattspyrnumann inn í liðið.“

Klippa: Sportið í kvöld - Aron Bjarna til Vals

Sportið í kvöld er á dagskrá Stöðvar 2 Sports á þriðjudags-, miðvikudags- og fimmtudagskvöldum klukkan 20.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á þþsjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.