Erlent

Tíræður 800 barna faðir sest í helgan stein

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Skjaldbakan Diego snýr heim til Espanola-eyju í Kyrrahafi í mars eftir að hafa leikið lykilhlutverk í að bjarga tegund sinni frá útrýmingu. Hinn rúmlega hundrað ára gamli Diego er sannkallaður glaumgosi. Enda er hann fjallmyndarlegur. Um áttatíu kíló og einn og hálfur metri að lengd þegar hann teygir úr sér.

Diego fæddist á eynni Espanola en var fluttur í dýragarðinn í borginni San Diego í Kaliforníu, sem er ekki nefnd eftir skjaldbökunni, þegar hann var um tvítugt. Þar dvaldist hann fram til ársins 1976 þegar hann fékk það hlutverk að bjarga tegund sinni, Galapagos-risaskjaldbökunni, frá útrýmingu.

Glaumgosaskjaldbakan svokallaða var þá flutt á Pinzon-eyju, sem er hluti Galapagos-eyjaklasans líkt og Espanola. Þar vann hann með tveimur öðrum karlskjaldbökum og tólf kvenskjaldbökum, öllum sem eftir voru í heiminum, að því að byggja stofninn upp á ný.

Undanfarna áratugi hefur Diego verið duglegri en flestir við að æxla sig. Stofninn hefur stækkað úr fimmtán dýrum í um tvö þúsund og á Diego átta hundruð börn, geri aðrir betur.

En nú er komið að því að þessi bjargvættur setjist í helgan stein. Hann er því á leið heim aftur til Espanolu þar sem hann mun búa með eðlum, sæljónum og fuglum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.