Íslenski boltinn

Gaupi og Maggi Bö hlustuðu á grasið á Meistaravöllum vaxa

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gaupi og Maggi Bö leggja við hlustir.
Gaupi og Maggi Bö leggja við hlustir. mynd/stöð 2

Guðjón Guðmundsson gerði sér ferð á Meistaravelli KR-inga þar sem Magnús Valur Böðvarsson ræður ríkjum.

Magnús, eða Maggi Bö eins og hann er jafnan kallaður, segir að Meistaravellir komi vel undan vetri.

„Veðurfarið síðustu vikur hefur verið mjög gott. Þetta lítur frekar vel út. Þessi auka tími sem við fáum gerir það líka að verkum að völlurinn á að vera í toppstandi,“ sagði Maggi við Gaupa í Sportpakkanum.

En heyrum við grasið vaxa, spurði Gaupi Magga. „Þú getur alveg lagst niður og hlustað. Þú heyrir það varla,“ svaraði Maggi. „Og þó, þetta getur gerst hratt.“

Sjö af tólf liðum í Pepsi Max-deild karla spila heimaleiki sína á gervigrasi. Maggi er uggandi yfir þessari þróun en hann er gras-megin í lífinu.

„Ég held að íslenskur fótbolti falli langt á eftir öðrum þjóðum ef við færum okkur alveg yfir á gervigras. Það gerðist í Noregi fyrir 20 árum þegar þeir flykktust yfir á gervigras. Líka í Hollandi en þeir sneru því við,“ sagði Maggi. „Fótbolti er spilaður á grasi úti í heimi en ekki á gervigrasi.“

Maggi segir að það sé vel hægt að halda úti góðum grasvöllum á Íslandi, þrátt fyrir veðurfarið.

„Það stríðir okkur og auðvitað erum við smá bundnir af því. Þess vegna skiptir máli að vera með almennilega uppbyggða velli og þess háttar. Það er vinna sem fylgir því en það hefur ekki verið lögð nein vinna í viðhald og þess háttar á fótboltavöllum hingað til,“ sagði Maggi sem er menntaður grasvallafræðingur og er í faginu af lífi og sál.

„Mín ástríða er að sjá um góða fótboltavelli. Þetta er mín ástríða og ég vil alltaf að við séum með eins góða fótboltavelli og mögulegt er,“ sagði Maggi að endingu.

Klippa: Sportpakkinn: Maggi Bö ánægður með ástand MeistaravallaFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.