Erlent

Ætla að breyta ímynd Ischgl

Andri Eysteinsson skrifar
Frá alpabænum Ischgl í Austurríki.
Frá alpabænum Ischgl í Austurríki. EPA/STR

Skíðasvæðið alræmda í austurríska alpabænum Ischgl, sem komst í umræðuna vegna gruns um að staðurinn væri miðpunktur kórónuveirufaraldursins í Evrópu, mun umbreytast að faraldrinum loknum. 

Stefnt er að því að ímynd staðarins, sem var lýst sem „Íbíza Alpafjallanna“ verði breytt og áhersla verði lögð á annarskonar ferðaþjónustu á svæðinu. Guardian greinir frá.

Því er útlit fyrir það að partí-ferðamennskudagar Ischgl séu liðnir en bæjarstjóri Ischgl, Werner Kurz greindi frá áformunum í yfirlýsingu í gær. „Við munum endurskoða uppbyggingu síðustu ára og gera endurbætur þar sem þess er þörf,“ sagði Kurz en nýverið var bærinn opnaður að nýju eftir að hafa setið í mánaðarsóttkví.

Kurz sagði þó að ímynd staðarins sem áfangastaðar fyrir þyrsta skíðamenn fyrst og fremst væri ósanngjörn enda hefði Ischgl margt annað að bjóða en skemmtanalíf. Bæjarstjórinn viðurkenndi þó að breytingar þyrftu að verða.

„Við munum minnka partý-ferðamennskuna og einbeita okkur að skíðafólki en ekki þeim sem koma einvörðungu til að skemmta sér,“ sagði Kurz.

Ischgl komst í heimsfréttirnar í mars eftir hæg viðbrögð yfirvalda þar í bæ við útbreiðslu kórónuveirunnar. Íslensk heilbrigðisyfirvöld höfðu sett Ischgl á lista yfir sérstök áhættusvæði vegna faraldursins 5. mars. Lífið hélt þó áfram sinn vanagang í Ischgl í viku til viðbótar og hefur verið hægt að rekja þúsundir smita til staðarins.

Fyrstu aðgerðir í Ischgl voru þær að skemmtistaðurinn Kitzloch lokaði 9. mars eftir að barþjónn staðarins hafði greinst með veiruna. Talið er líklegt að flauta barþjónsins, sem fékk að ganga á milli manna, hafi dreift veirunni til gesta í Ischgl. Skíðasvæðinu var að endingu lokað 13. Mars en yfir 800 smit í Austurríki hafa verið rakin til Ischgl og nærliggjandi svæðis.

Ríkisstjóri Tíról-héraðs þar sem Ischgl er að finna hefur viðurkennt að mistök hafi verið gerð. Þúsundir gesta vinna nú að hópmálsókn gegn skíðasvæðinu vegna málsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×